Enski boltinn

Benteke og Pearson bestir í apríl

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Christian Benteke með verðlaunin.
Christian Benteke með verðlaunin. vísir/EPL
Nigel Pearson, knattspyrnustjóri nýliða Leicester í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, var útnefndur stjóri mánaðarins fyrir apríl.

Pearson stýrði Leicester til sigurs í fjórum leikjum liðsins í apríl af fimm, en með sigrunum komst liðið upp úr fallsæti.

Leicester hafði ekki unnið í 140 daga þegar það lagði West Ham í byrjun síðasta mánaðar, en þeim sigri fylgdu þrír til viðbótar gegn West Brom, Swansea og Burnley.

Leicester tapaði síðasta leik mánaðarins gegn Chelsea, en vann svo Newcastle um síðustu helgi og er því búið að vinna fimm af síðustu sex.

Christian Benteke, framherji Aston Villa, var svo útnefndur leikmaður mánaðarins, en hann hefur verið eins manns sóknarher undanfarnar vikur.

Belginn skoraði mark í tapleik gegn Manchester United, setti svo þrennu gegn QPR og skoraði einnig gegn Tottenham.

Þá bætti Benteke við marki gegn Liverpool í undanúrslitum enska bikarsins, en Villa mætir Arsenal í úrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×