Viðskipti innlent

Vita allt um laun og tilfinningar samstarfsmanna

ingvar haraldsson skrifar
Starfsmenn Kolibri funda alla föstudag og segja frá hvernig þeim líður.
Starfsmenn Kolibri funda alla föstudag og segja frá hvernig þeim líður. mynd/kolibri
„Allir í Kolibri hafa aðgang að öllu. Gildir þá einu hvort um er að ræða rekstraráætlun, stöðuna á bankareikningunum, samninga eða laun vinnufélaganna. “ segir í færslu sem nýsköpunarfyrirtækið Kolibri deildi á Facebook.

Pétur Orri Sæmundsen, framkvæmdastjóri Kolibri, segir almenna ánægju meðal starfsmanna um fyrirkomulagið, þar með talið að upplýsa um laun samstarfsmanna. „Það hefur verið ótrúlega lítil umræðu um launin. Við förum einu sinni á ári yfir launin með starfsmönnum. Ég man bara eftir því einu sinni síðastliðinn þrjú ár að einhver hafi komið til mín persónlega að ræða launmál, “ segir Pétur.

Starfsmönnum Kolibri er treyst til sjálfstæðrar vinnu að sögn Péturs, framkvæmdastjóra fyrirtækisins.mynd/kolibri
Pétur segir að strax í upphafi, þegar fyrirtækið var stofnað árið 2007 hafi verið lögð áhersla á gegnsæi í rekstri fyrirtækisins. Þá hafi aðeins fjórir starfsmenn starfað hjá fyrirtækinu en fyrirkomulagið hafi haldist síðan. Nú starfa um tuttugu starfsmenn hjá Kolibri en Pétur segir að helstu verkefni fyrirtækisins felist í að skapa fyrirtækjum sérstöðu með starfrænum upplifunum.

Starfsmenn funda a.m.k. mánaðarlega á svokölluðum samstillingarfundum þar sem upplýst er um hagnað, stöðu á bankareikningum og fleira slíkt.

Segja frá líðan sinni minnst vikulega

Þá deila starfsmenn einnig tilfinningum sínum minnst vikulega. Það er gert í upphafi starfsmannafunda hjá fyrirtækinu. „Við segjum frá hvernig okkur líður. Þá talar bara einn í einu og segir til um hvort hann sé leiður, reiður, glaður eða hræddur.“

„Það er fátt eins hjálplegt og að segja frá tilfinningum sínum. Þá koma upp mál sem myndu kannski ekki koma upp á yfirborðið. Þetta er eins praktískt og þetta verður,“ segir Pétur.mynd/kolibri
Pétur segir að sumum sem standa utan við fyrirtækið hafi þótt furðulegt að starfsmenn deili tilfinningum sínum með vinnufélögum. „Það er fátt eins hjálplegt og að segja frá tilfinningum sínum. Þá koma upp mál sem myndu kannski ekki koma upp á yfirborðið. Þetta er eins praktískt og þetta verður,“ segir Pétur.

Pétur bætir við mikið sé lagt upp úr að starfsmönnum fyrirtækisins sé treyst til sjálfstæðra vinnubragða. „Við leggjum áherslu á sjálfræði allra starfsmanna. Við reynum að ráða ekki inn fólk í fyrirtækið sem getur ekki stjórnað sér sjálft. Sjálfræðið nær líka til þess að við erum búin að vera að þróa innkaupastefnu sem felst í að allir mega kaupa allt sem þeir vilja, svo lengi sem þeir ráðfæra sig við réttu aðilana,“ segir Pétur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×