Viðskipti innlent

Býst ekki við að önnur félög feti í fótspor Olís

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Olís hefur hækkað verð á bensínlítra um níu krónur síðan á föstudag.
Olís hefur hækkað verð á bensínlítra um níu krónur síðan á föstudag. vísir/auðunn níelsson/skjáskot
Bensínverð er aftur komið yfir 200 krónur en það hækkaði um fjórar krónur nú á föstudag. Hæst er verðið hjá Olís en þar kostar bensínlítrinn rúmar 206 krónur og dísel um 208 krónur. Miklar sveiflur á heimsmarkaðsverði er það sem veldur, en fyrir nýjustu hækkun þar, hafði bensínverð lækkað um rúmar fimmtíu krónur á lítrann frá því að verðið fór hæst í júní í fyrra.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir álagningu olíufélaganna heldur meiri en meðalálagningu síðasta árs, eða um þremur til fjórum krónum hærri. Hann segist þó ekki eiga von á að önnur félög feti í fótspor Olís. „Miðað við vísbendingar fyrir helgi þá hefði maður getað átt von á hækkun en nú hefur verð lækkað aðeins á mörkuðum. Þannig að ég á frekar von á að Olís gangi til baka með þetta,“ segir Runólfur.

Sjá einnig: Olíuverð á Íslandi lækkar ekki í samræmi við heimsmarkað

Á þessu línuriti má sjá sundurliðun á bensínverði frá því í janúar 2012. Við útreikningana er stuðst við daglegar upplýsingar um þróun heimsmarkaðsverðs á bensíni á Norður-Evrópu markaði. Markaðsverðið er uppreiknað daglega miðað við gengi íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadal og eðlisþyngd bensíns. Þannig fæst daglegt heimsmarkaðsverð á bensínlítra í íslenskum krónum alla daga sem markaðir eru opnir (virkir dagar). Mánaðarverðin eru meðaltal uppsafnaðra dagsverða yfir tímabilið. 

Í janúar stóð olíutunnan í 46 dollurum og hafði þá ekki verið lægri í sex ár. Bensínlítrinn hér á landi fór lægst í 197 krónur en meðalútsöluverð á bensíni á síðasta ári var um 240 krónur á lítra. Runólfur þorir ekki að segja til um hvort botninum hafi verið náð.

„Það allavega spáði kannski enginn akkúrat svona mikilli verðlækkun eins og varð á síðasta ári en það eru miklar sveiflur að eiga sér stað núna. Ég sé fram á það að verðið sem fór hækkandi seinni partinn í janúar og byrjun febrúar muni brátt byrja að ganga aftur til baka.“

2 Year Crude Oil Prices - Crude Oil Price Chart
Hér má sjá þróun á olíuverði á heimsmarkaði undanfarin tvö ár.
Lægst er verðið á bensínlítranum hjá Orkunni en þar er hann á 202,50 krónur og dísel á 204,50. Hæst er það hjá Olís en þar er bensínlítrinn á 206,80 krónur og dísel á 208,80 krónur. 

skjáskot/gsm bensín

Tengdar fréttir

Er lágt olíuverð bara gott?

Ein mesta efnahagsinnspýting í langan tíma fyrir Íslendinga á sér nú stað með stórfelldri lækkun olíuverðs. Íslenska þjóðin kaupir um 500 milljónir lítra af olíu árlega til að keyra samfélagið til sjávar og sveita.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×