Viðskipti innlent

Telur olíuverð á Íslandi ekki lækka í samræmi við lækkun á heimsmarkaði

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB. vísir/auðunn
Olíuverð á Íslandi er ekki að lækka í samræmi við lækkun á heimsmarkaði. Olíufélögin eru of lengi að taka við sér og á meðan rennur hver auka króna sem lögð er á lítrann beint í vasa hluthafanna. Þetta segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur ekki verið lægra í sex ár. Það hefur lækkað jafnt og þétt undanfarnar vikur og bendir allt til áframhaldandi lækkunar. Þá hefur bensínlítrinn hérlendis lækkað umtalsvert og stendur nú í 197 krónum. Meðalútsöluverð á bensíni á síðasta ári var um 240 krónur á lítra.

„Hver króna sem ekki skilar sér, eða er tekin aukalega af bensín- og díselolíulítra yfir eitt ár, gera um 340 milljónir króna. Ofan á þær leggst virðisaukaskattur þannig að þetta eru yfir 400 milljónir úr vasa neytenda. Þetta er fljótt að telja,“ segir Runólfur.

Olían tók að lækka í lok síðasta árs. Það gerðist í kjölfar þess að Alþjóðaorkumálastofnunin birti spá um minnkandi eftirspurn á olíu á árinu 2015. Verðlækkunin er því meðal annars rakin til ótta manna við minnkandi eftirspurn, en samkvæmt spánni verður eftirspurnin umtalsvert minni en gert var ráð fyrir.

Runólfur segir að þrátt fyrir að bensínlítrinn hafi vissulega lækkað hér á landi, þá hafi hann ekki lækkað í takt við lækkun á heimsmarkaði.

„Við sáum það að meðalálagning í desembermánuði á hvern bensínlítra var ríflega fjórum krónum yfir álagningu fyrri hluta árs, eða fyrstu níu mánuðina,“ segir hann.

„Rannsóknir hafa sýnt að félögin eru fyrr til að hækka og seinni til að lækka. Okkar úttekt hefur sýnt fram á það að það hefur verið lækkun en hún hefur ekki skilað sér sem skyldi seinni part árs eða þegar lækkun á heimsmarkaði fór að verða meiri og meiri og eins og olíufélögin hafi sætt lagi og hækkað álagningu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×