Viðskipti innlent

Dómsdagur í Al-Thani málinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vinstri: Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg og Ólafur Ólafsson sem var annar stærsti hluthafi bankans í gegnum eignarhaldsfélög sín. Ólafur og Al-Thani voru kunningjar, m.a í gegnum sameiginleg áhugamál sín, hestamennsku, en Al-Thani á stóran hestabúgarð í Katar.
Frá vinstri: Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg og Ólafur Ólafsson sem var annar stærsti hluthafi bankans í gegnum eignarhaldsfélög sín. Ólafur og Al-Thani voru kunningjar, m.a í gegnum sameiginleg áhugamál sín, hestamennsku, en Al-Thani á stóran hestabúgarð í Katar. Vísir
Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Ólafur Ólafsson og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi stjórnendur og eigendur Kaupþings, mæta örlögum sínum í Hæstarétti í dag þegar dómur verður kveðinn upp í Al-Thani málinu.

Fjórmenningarnir voru allir dæmdir í óskilorðsbundið fangelsi í héraði í desember 2013. Eru dómarnir yfir Hreiðari og Sigurði þeir þyngstu sem fallið hafa í efnahagsbrotamáli hér á landi; Hreiðar var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi og Sigurður í fimm ára fangelsi.

Fjórmenningarnir fóru allir fram á frávísun málsins en til vara kröfðust þeir ómerkingar á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Þá fara þeir allir fram á að málskostnaður falli á ríkissjóð.

Al-Thani málið á rætur að rekja til hlutabréfakaupa sheikh Mohammad Bin Khalifa Al-Thani hinn 22. september 2008 en félag hans keypti 5,01 prósenta hlut í Kaupþingi banka fyrir 25,7 milljarða króna með láni frá bankanum.

Var mál sérstaks saksóknara meðal annars byggt á því að um sýndarviðskipti hefði verið að ræða til að halda uppi hlutabréfaverði í Kaupþingi og búa til falska eftirspurn eftir hlutabréfum í bankanum. Sömuleiðis að Al-Thani fékk lán frá Kaupþingi til kaupa á bréfunum.

 

Dómarnir yfir fjórmenningunum

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi en til kemur gæsluvarðhald sem hann sitja á rannsóknarstigi. Dómurinn er óskilorðsbundinn. Hreiðar Már þurfti jafnframt að greiða málsvarnarlaun verjanda síns, alls 33,4 milljónir króna.

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, var dæmdur í fimm ára fangelsi, óskilorðsbundið. Hann þurfti jafnframt að greiða málsvarnarlaun verjenda, Gesti Jónssyni, sem sagði sig frá málinu sl. vor 10,8 milljónir króna og Ólafi Eiríkssyni 3,5 milljónir króna.

Ólafur Ólafsson fjárfestir hlaut þriggja og hálfs árs fangelsisdóm óskilorðsbundinn. Þá þurfti hann að greiða málsvarnarlaun verjanda síns Þórólfs Jónssonar, 14,8 milljónir króna og verjanda sem sagði sig frá málinu, Ragnari Hall 5,8 milljónir.

Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg var dæmdur í þriggja ára fangelsi óskilorðsbundið.

Eiga sér engar málsbætur

Í rökstuðningi héraðsdóms varðandi ákvörðun refsingar segir: „Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ákærðu, Hreiðar Már og Sigurður, voru á þeim tíma er brotin voru framin æðstu stjórnendur stærsta viðskiptabanka á Íslandi. Ákærði, Magnús, var framkvæmdastjóri viðskiptabanka í samstæðu Kaupþings banka hf. og ákærði, Ólafur, einn stærsti einstaki hluthafi í bankanum í gegnum félög sín. Hin refsiverðu viðskipti ákærðu vörðuðu verulegum fjárhæðum. Eiga brotin sér ekki hliðstæðu í íslenskri réttarframkvæmd. Þá er við ákvörðun refsingar litið til þess að verulegt fjárhagslegt tjón hlaust af brotum ákærðu, sem fullframin voru á tímabilinu 18. til 23. september 2008. Eiga ákærðu sér engar málsbætur.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×