Skoðun

Átta sigrar Vöku á 80 árum

Bergþór Bergsson skrifar
Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta við Háskóla Íslands, var stofnað á vormánuðum 1935, nánar tiltekið 4. febrúar. Félagið fagnar því 80 ára afmæli í næstu viku, sama dag og gengið verður til kosninga á Uglunni um hvaða félag það verður sem leiðir starf Stúdentaráðs á komandi starfsári.

Stofnun félagsins átti sér stað á miklum umbrotaárum, þegar að stúdentar fóru fyrst fyrir alvöru að skipta sér niður í fylkingar í upphafi fjórða áratugarins. Félagið var stofnað með það í huga að koma í veg fyrir uppgang róttækra afla stúdenta en á árunum fyrir stofnár Vöku var félag þjóðernissinnaðra stúdenta stofnað og voru gildi þess félags róttæk í meira lagi. Eins var Vaka stofnuð til þess að vinna að eflingu lýðræðislegra hugsjóna sem og að berjast fyrir málefnum stúdenta, þannig að baráttan yrði stúdentum til heilla. Ljóst er að síðarnefndu atriðin eru þau sem að félagið berst fyrir í dag. Jafnt og þétt hefur félaginu vaxið fiskur um hrygg, en Vaka hefur haft meirihluta í Stúdentaráði í um það bil helming starfsára sinna.

Afrekaskrá félagsins er því orðin nokkuð löng og yrði það að telja öll þau málefni sem félagið hefur komið áleiðis næsta ógjörningur. Hins vegar er svo farið að þau mál sem að félagið hefur barist fyrir eru vissulega misjafnlega stór og sigrarnir eftir því.

Nokkrir sigrar á þessari 80 ára tímabili standa nokkuð framar öðrum og í tilefni afmælisins hafa því verið teknir saman, það sem að kalla má eina stærstu sigrana, en þeir eru hér átta talsins, einn fyrir hvern áratug sem félagið hefur verið starfandi.

1. Stofnsetti Félagsstofnun Stúdenta

Hvenær: 1968



Árið 1966 var samþykkt í SHÍ að koma á stúdentastofnun, það er Félagsstofnun stúdenta eða FS. Þá var formaður SHÍ Vökuliði, Skúli Johnsen. Stúdentastofnun átti að reka öll þjónustufyrirtæki stúdentaráðs, en eftir samþykki Háskólaráðs við sömu tillögu sömdu ráðin saman tillögu að frumvarpi sem og varð að lögum sem tóku gildi árið 1968 og standa næsta óbreytt enn þann dag í dag.

Í dag rekur stofnunin Hámu, Stúdentakjallarann, Bóksölu Stúdenta, heldur utan um Stúdentagarðana og sér um starfsemi til þess að bæta daglegt líf stúdenta.

2. Opnun Stúdentakjallarans – í tvígang

Hvenær: 1975 og 2007

Stúdentakjallarinn opnaði árið 1975 kjallara Gamla Garðs, en honum var svo lokað árið 2007, 32 árum síðar.

Það var svo ekki fyrr en 1. Desember 2012 sem að Stúdentakjallarinn opnaði á ný, nú við hlið Háskólatorgs, en það er sá Stúdentakjallari sem og við þekkjum í dag. Ljóst er að opnun hans varð mikill hvalreki fyrir nemendur sem og starfslið Háskólans, enda má þar sjá kennara í bland við nemendur sitja og ræða þjóðfélagsmálin.

Ef ekki hefði verið fyrir áræðni Stúdentaráðs, sem þá var leitt áfram af Vöku, hefði Kjallarinn ekki litið dagsins ljós.

3. Pólitíkina út úr Stúdentaráði

Hvenær: Hófst 1988 – Stendur í reynd enn yfir



Áður fyrr var það alþekkt fyrirbæri að Stúdentaráð sendi frá sér ályktanir og tæki afstöðu í málum sem ekki vörðuðu stúdenta, sem dæmi má nefna deiluna um það hvort Ísland skyldi ganga í Nató, eða hvort álver ætti að rísa á Grundartanga.

Vökuliðar voru ósáttir við þetta fyrirkomulag, enda megintilgangur SHÍ að hlúa að hagsmunum stúdenta og gæta að þeim, í stað þess að vera pólitískt stefnumótunarafl.

Baráttan fyrir þessu hófst um miðjan 9. áratug, en hefur í reynd staðið að nokkru leyti allar götur síðan, enda margar fylkingar sem hafa verið á því að yfirlýsingar sem þessar sé tilgangur SHÍ. Jafnframt er ljóst að baráttan hefur borið árangur, en SHÍ sendir ekki lengur frá sér pólitískar yfirlýsingar er ekki varða nemendur.

4. Byggja Stúdentagarða fyrir nemendur

Hvenær: 1976 og 2013

Vaka hefur tekið þátt í byggingu allra stúdentagarðanna, að frátöldum Gamla Garði, en hann reis árið 1934, árið fyrir stofnun Vöku. Hins vegar er ekki svigrúm til þess að fjalla um þá alla og verður umfjöllun því takmörkuð við tvo, Hjónagarðana og Oddagarða.

Hjónagarðarnir risu árið 1976, en var þar tekið mikið framfararskref fyrir háskólastúdenta sem áttu börn. Þeir risu hins vegar ekki vandkvæðalaust, en Vaka barðist ötullega fyrir þeim allt frá stofnun FS, næsta 10 árum áður, þó svo að hugmyndin hafi kraumað talsvert lengur.

Hins vegar urðu Vökuliðar fyrir miklu mótlæti af hálfu annara stúdentahreyfinga en þær töldu að bygging hjónagarða myndi leiða til félagslegrar einangrunar þeirra er þar byggju. Vökuliðar bentu á að ekkert slíkt hefði verið leitt í ljóss og bentu jafnframt á þá brýnu þörf sem fyrir garðana var. Þrátt fyrir mikið mótlæti og fór svo að fyrsta skólfustungan var tekin árið 1972 og garðarnir risu árið 1976.

Oddagarðar voru teknir í notkun árið 2013, en þeir eru fyrir einstaklinga og barnlaus pör. Vaka hefur myndað meirihluta Stúdentaráðs frá árinu 2009 og aðkoma Vöku að þessum stúdentagörðum því mjög mikil, enda Vaka yfirleitt með aukin meirihluta þessi starfsár.

Þessir Stúdentagarðar kynntu jafnframt til sögunnar nýtt form, það er í stað íbúða var um að ræða einstaklingsherbergi með sameiginlegu eldhúsrými, en þetta fyrirkomulag hefur gefist vel.

5. Koma á fót prófbankanum á Uglunni

Hvenær: 2002/2003

Sjálfboðaliðar úr Vöku eyddu 150 vinnustundum í að skanna inn 3000 gömul próf árið 20012, síðustu tveggja ára áður. Þetta gerðu þeir því verkefnið óx Háskólanum svo í augum að ófyrirséð væri að það væri hægt.

Prófin voru svo gerð aðgengileg inni á heimasíðunni prof.is. Þau voru síðar jafnframt sett inn á Uglu, en þetta markar upphafið af því prófasafni sem að finna má þar í dag.

6. Stúdentakort fyrir nemendur HÍ

Hvenær: 2006

Stúdentaráð réðst í að búa til Stúdentakort fyrir alla nemendur Háskóla Íslands, en Vaka var þar í fararbroddi og mikil vinna í kringum ferlið framkvæmd í formi sjálfboðastarfa af hálfu Vöku, en Vaka sá að nær öllu leyti um framleiðsluferli kortanna.

Hugmyndin um Stúdentakort eða þess háttar hafði setið föst hjá Háskólanum í 9 ár, eða þangað til 2005, þegar að Vökuliðar sögðust sjálfir ætla að sjá um gerð kortana.

Þau litu dagsins ljóss árið 2006 og auðvelda okkur lífið enn þann dag í dag og munu halda því áfram fram í nána framtíð.

7. Svartur listi yfir kennara sem skila einkunnum seint

Hvenær: 2007

Á prof.is var jafnframt að finna upplýsingar um einkunnaskil kennara svo sem hvaða kennarar skiluðu seint, en þar mátti finna svartan lista kennara.

Árið 2007 þótti Stúdentaráðsliðum nóg um slæm einkunnaskil og með Vöku í meirihluta fór svo að töf á einkunnaskilum var kærð til Umboðsmanns Alþingis. Í kjölfar þeirrar kæru þá voru settar nánari verklagsreglur um einkunnaskil við Háskólann. Svo fór að einkunnaskil löguðust til muna og þó svo að einstaka einkunnir komi seint enn þann dag í dag, er ljóst að þetta voru mikil vatnaskil frá því sem áður var.

8. Sigur í dómsmáli gegn Lánasjóði íslenskra námsmanna

Hvenær: 2013

Lánasjóður íslenskra námsmanna breytti úthlutunarreglum sínum í júlí 2013 þannig að í stað þess að áskilið væri að stúdentar lykju við 18 einingar þá var áskilið að stúdentar lykju 22 einingum. Stúdentaráð, með Vöku í fararbroddi þótti þessi breyting eiga sér stað alltof seint sem og að markmið hennar væri ólögmætt, það er að takmarka aðgang fólks að menntun. Stúdentaráð, ásamt öðrum stúdentafélögum við háskóla á Íslandi réðust í það að fara í dómsmál við Lánasjóðinn.

Svo fór að SHÍ vann dómsmálið og úthlutunarreglunum var ekki breytt það árið, en þannig var komið til móts við 16% stúdenta með þeim hætti að þeim var heimilt að taka námslán.



Ljóst er að mikið vatn hefur runnið til sjávar frá stofnun félagsins. Fólk hefur komið og farið, áherslur tekið breytingum og samfélagið breyst, en háskólastúdentum hefur fjölgað úr 167 í 13.054 á starfstíma Vöku.

Hins vegar, þrátt fyrir breytingar, hefur Vaka ávallt staðið vörð um hagsmuni stúdenta, en ekki sér fyrir endann á því ferðalagi sem að Jóhann Hafstein, fyrsti formaður félagsins, og félagar lögðu upp í fyrir 80 árum, því að þó svo að mannabreytingar verði hefur vegferðin ávallt verið sú sama, hagur stúdenta er fyrir brjósti og hugsjón um betri háskóla í vasanum. Það er og hefur verið hornsteinn félagsins og jafnframt grundvöllurinn fyrir langlífi þess.

Til hamingju með daginn Vaka. Til hamingju með daginn Vökuliðar allir og takk fyrir gott starf í gegnum árin. Til hamingju með daginn háskólanemar.




Skoðun

Sjá meira


×