Handbolti

Forseti IHF: Engin mannréttindabrot í Katar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hassan Moustafa er umdeildur.
Hassan Moustafa er umdeildur. vísir/getty
Hassan Moustafa, hinn vægast sagt umdeildi forseti Alþjóðahandknattleikssambandsins, IHF, segir Katara ekki vera að brjóta á mannréttindum verkmannanna sem byggðu handboltahallirnar fyrir HM 2015.

Sjá einnig:EB: Nútíma þrælar byggja handboltahallirnar á HM

Undanfarin fjögur ár, eða síðan Katar var valið til að halda HM 2022 í fótbolta, hefur umfjöllunin um nútíma þrælahald í landinu verið gríðarleg og öllum ljóst að þar sé verið að brjóta á mannréttindum innfluttu verkmannanna.

Verkamenn eru fluttir inn frá Indlandi, Sri Lanka og Nepal þar sem þeir þræla sér út á daginn við að byggja velli og heilu hverfin fyrir HM í fótbolta sem hefst 2022. Innfluttir verkamenn voru einnig látnir byggja handboltahallirnar glæsilegu sem notaðar voru á HM í handbolta.

„Ég kom hingað meira en 20 sinnum eftir að við ákváðum að halda HM í Katar. Ég heimsótti leikstaðina margsinnis þegar verið var að byggja þá,“ sagði Moustafa í viðtali við dönsku sjónvarpsstöðina TV2.

Moustafa forðaðist viðtöl eins og heitan eldinn á meðan HM stóð en veitti Dönunum stutt viðtal eftir síðasta blaðamannafundinn. Í frétt á heimasíðu TV2 segir að það sé álíka erfitt að fá viðtal við Moustafa og Barack Obama, Bandaríkjaforseta.

„Ég hef sjálfur talað við þá sem vinna hérna og enginn talar um það sem þið eruð að ræða. Enginn talar um mannréttindabrot,“ bætti forsetinn við.

Hann bauðst svo til að staðfesta allar 20 heimsóknir sínar með tölvupósti til TV2. Fréttamaðurinn gaf honum upp netfang til að senda myndir á en ótrúlegt en satt bárust þær aldrei.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×