Innlent

Fær aðgang að gögnum ráðuneytis um innflutning á búvörum

Birgir Olgeirsson skrifar
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, til vinstri og Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri mjólkurbúsins Kú, er til hægri.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, til vinstri og Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri mjólkurbúsins Kú, er til hægri. Vísir / Stefán
Félag atvinnurekenda fær aðgang að gögnum og fundargerðum ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara vegna tillögu nefndarinnar til ráðherra um að gefa opinn innflutningskvóta á ógerilsneyddri, lífrænni mjólk vorið 2014.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagi atvinnurekenda en þar segir að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu beri að afhenda félaginu þessi gögn samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál en Mjólkurbúið Kú hafði óskað eftir kvótanum þar sem slíkt hráefni var ekki í boði á innanlandsmarkaði.

Félag atvinnurekenda óskaði eftir gögnunum sem lögbundinn umsagnaraðili um tillögur og ákvarðanir nefndarinnar. Félagið taldið að til að geta rækt sitt lögbundna hlutverk, að gæta mikilvægra hagsmuna aðildarfyrirtækja sinna varðandi innflutning á búvörum, yrði það að hafa aðgang að gögnum nefndarinnar.

Hafði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fallist á að afhenda félaginu hluta þeirra gagan, sem um ræddi, samtals um þrjátíu skjöl, en neitaði að afhenda önnur, sem haldið var fram að innihéldu upplýsingar um viðskiptakjör og vörðuðu viðskiptahagsmuni aðila.

Aðilar málsins, Mjólkurbúið Kú og Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði, sáu ekkert að því að gögnin yrðu afhent, en Eimskipafélagið lagðist gegn því að upplýsingar um tilboð sem Kú var gert í flutninga yrðu afhentar. Úrskurðarnefndin taldi ekki að þar væru þeir hagsmunir í húfi að þeim væri hætta búin þótt FA fengi aðgang að gögnunum. Var því lagt fyrir ráðuneytið að afhenda níu fundargerðir ráðgjafarnefndarinnar, auk fjögurra tölvupósta og tilboðs Eimskips.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×