Handbolti

Dagur: Maður var búinn að heyra alls kyns sögur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska landsliðsins, var að vonum ánægður með að hafa unnið Slóveníu í leiknum um sjöunda sætið á HM í handbolta - það síðasta sem veitir öruggan þátttökurétt í undankeppni ÓL 2016.

„Það er nú í okkar höndum að komast á Ólympíuleika og það er gott. Maður er aldrei viss um hvernig fyrirkomulagið er og stundum komast liðin í 8., 9. og 10. sæti inn. Maður var búinn að heyra alls konar sögur af því,“ sagði Dagur í viðtali við Arnar Björnsson í dag..

„Við erum því fyrst og fremst ánægðir með að hafa náð að klára þetta núna.“

Sjá einnig: Guðmundur: Vitum ekki hvað við erum að spila um

Slóvenar byrjuðu betur en Dagur tók leikhlé eftir tólf mínútna leik sem breytti leik hans manna.

„Við áttum erfitt uppdráttar þar sem að sóknarleikurinn var orðinn þreyttur og var það allan leikinn. En Slóvenarnir lentu í svipuðum vandræðum með það.“

„Það er ekki alltaf sem að leikhlé virka en það gerði það núna. Heinevetter kom inn í markið og við fengum fleiri hraðaupphlaup. Þá fór þetta allt saman að rúlla betur.“

Sjá einnig: Þjóðverjar með öruggt sæti í undankeppni ÓL

Steffen Weinhold missti af leiknum gegn Króatíu í gær en hann var með í dag. „Hann var kannski ekki sárþjáður en hann var tilbúinn að spila. Við vissum að hann gæti ekki farið í sínar aðgerðir af fullum krafti en hann heldur boltanum vel og hausinn á honum er mikilvægur fyrir liðið.“

Degi líst vel á framtíðina og segir að liðið ætti að geta bætt sig um 10-15 prósent á næstu árum.

„Það hangir saman með meiðslum lykilmanna en við eigum möguleika á að bæta okkur. Ég er mjög sáttur við mína menn á þessu móti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×