Handbolti

Kristján Ara fer yfir Frakkaleikinn með Gaupa | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Arason og Guðjón Guðmundsson fóru vel yfir Frakklandsleikinn í HM-kvöldi með Herði Magnússyni á Stöð 2 Sport í gærkvöldi.

Íslenska landsliðið gerði þá 26-26 jafntefli við Ólympíu- og Evrópumeistara Frakka en íslenska liðið spilaði mjög vel í leiknum og var hársbreidd frá því að vinna leikinn í lokin.

Kristján og Guðjón voru ánægðir með leik íslenska liðsins enda liðið að spila sinn langbesta leik á mótinu til þessa.

„Besti maður liðsins var Aron Pálmars. Hann skorar ekki bara fimm mörk því hann dregur svo mikið í sig og er með níu stoðsendingar. Það stafar svo mikil hætta af honum að það verður alltaf að tvídekka hann. Þá skapar hann pláss fyrir hina," sagði Kristján.

„Ég var líka ánægður með þegar við Snorri skoraði mark þegar við vorum manni fleiri því við erum búnir að vera í vandræðum manni fleiri. Það leystum við mjög vel núna á móti þessu sterka franska liði," sagði Kristján og bætti við:

„Ef að Narcisse hefði ekki komið inn í franska liðið, sem er alveg hrikalega sterkur leikmaður, þá hefðum við unnið þennan leik. Jafntefli eru samt sanngjörn úrslit," sagði Kristján.

Kristján var ánægður með þjálfarann í gær. "Í fyrsta skipti var gott jafnvægi hjá honum. Í fyrsta leiknum var of alltof mikið um innáskiptingar en í næsta leik á móti Alsír þá var varla skipting sem kostaði mikið þrek og því hafði maður áhyggjur fyrir þennan leik. Í þessum leik náði Aron að hleypa mönnum inn og hvíla menn þannig að menn komu aftur óþreyttir inn í leikinn. Það var mjög jákvætt hjá okkur," sagði Kristján.

Það er hægt að sjá alla greiningu þeirra Guðjóns Guðmundssonar og Kristjáns Arasonar í myndbandinu hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×