Handbolti

Dagur: Sárt fyrir Ísland að tapa stórt

Arnar Björnsson í Doha skrifar
Dagur Sigurðsson var afslappaður á blaðamannafundi í dag enda Þjóðverjar í bílstjórasætinu í D-riðli.  Þeir mæta slakasta liðinu í riðlinum Sádi-Aröbum í lokaleiknum.

Hann hefur trú á því að Íslendingar vinni Egypta. Ætlar Dagur að vinna riðlinn?

„Já, það er planið núna. Við ættum að klára Sádana og því ákváðum við að taka okkur frí í dag og fara í Jeppasafarí ferð í eyðimörkina og borðum þar í kvöld. Tökum þetta frá og með morgundeginum og klárum Sádana."

Þú hefur engar áhyggjur af þeim leik?

„Nei, ég hef ekki miklar áhyggjur. Við þurfum samt að taka leikinn föstum tökum."

Ertu farinn að velta fyrir þér mótherjanum í 16-liða úrslitunum?

„Nei, það eru ennþá það mörg lið sem koma til greina að það hefur ekkert uppá sig að velta þeim fyrir sér. Það er nægur tími til þess síðar. Við erum búnir að spila fjóra erfiða leiki og það tekur á bæði andlega og líkamlega“.

Frammistaða íslenska liðsins, kemur hún Degi á óvart?

„Auðvitað koma úrslitin á óvart. Það er sárt að tapa stórt. Þeir eru í erfiðum riðli eins og við. Við sáum gott lið Rússa tapa með einu marki fyrir okkur og Pólverjum og með þremur mörkum gegn Dönum. Þar er svartnætti og allt í köku. Þetta er svo þunn lína þegar liðin eru svona jöfn að þá er hætt við því að maður lendi vitlausu megin við línuna."

Sérðu Íslendinga sem eru komnir með bakið upp við vegg gera eitthvað gegn Egyptum?

„Já, en þetta verður erfiður leikur. Egyptar eru nánast á heimavelli.  Þetta er mikið stemningslið og þeir spila af miklum krafti.  Handboltalega eru Íslendingar betri og þurfa að eiga toppleik til að sigla sigrinum heim.  Þeir gerar það og þá er mótið rétt að byrja."

Ekki missa af neinu sem gerist á HM. Fylgdu Vísi á Twitter, Facebook og Snapchat (notendanafn: sport365).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×