Handbolti

Argentína skildi Rússland eftir | Stórsigur Þjóðverja

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Johannes Sellin skoraði 11 mörk fyrir Þýskaland í dag.
Johannes Sellin skoraði 11 mörk fyrir Þýskaland í dag. vísir/getty
Argentínumenn gerðu sér lítið fyrir og unnu þriggja marka sigur, 27-30, á Rússum í lokaleik sínum í D-riðli Heimsmeistaramótsins í handbolta í Katar. Með sigrinum tryggði Argentína sér sæti í 16-liða úrslitum á kostnað Rússlands. Þar mætir Argentína annað hvort Svíþjóð eða Frakklandi.

Rússar voru yfir framan af leik en Argentínumenn jöfnuðu og leiddu með einu marki í hálfleik, 16-17.

Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður var staðan 23-23. Þá fóru Argentínumenn á flug, skoruðu fjögur mörk í röð og náðu heljartaki á leiknum sem þeir létu ekki af hendi.

Hornamaðurinn Federico Pizarro fór á kostum í liði Argentínu og skoraði níu mörk úr 11 skotum. Diego Simonet var einnig sterkur með sjö mörk og Federico Vieyra skoraði sex.

Daniil Shishkarev skoraði sjö mörk fyrir Rússland sem er á leið í Forsetabikarinn.

Þjóðverjar áttu ekki í miklum vandræðum með Sádí-Arabíu í sama riðli. Þýska liðið var miklu sterkara og leiddi með tíu mörkum í hálfleik, 8-18.

Lærisveinar Dags Sigurðssonar bættu við forskotið í seinni hálfleik og unnu að lokum 17 marka sigur, 19-36.

Hornamennirnir Johannes Sellin og Matthias Musche nýttu tækifærið í dag vel og skoruðu 11 mörk hvor. Línumaðurinn Erik Schmidt kom næstur með átta mörk.

Mojtaba Alsalem var markahæstur í liði Sádí-Arabíu með fjögur mörk. Sádarnir töpuðu öllum sínum leikjum og fara í Forsetabikarinn ásamt Rússum.

Þjóðverjar unnu D-riðilinn með níu stig og mæta Egyptum í 16-liða úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×