Handbolti

Lindberg: Ekkert sérstakt við leik gegn Íslandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Doha skrifar
Hans Óttar Lindberg er einn besti hornamaður heims.
Hans Óttar Lindberg er einn besti hornamaður heims. vísir/getty
Ísland og Danmörk eigast við í 16-liða úrslitum á HM í handbolta í kvöld en hornamaðurinn Hans Lindberg, sem er fæddur á Íslandi og á íslenska foreldra, segir að leikurinn í dag sé fyrir hann eins og hver annar.

„Ég á yfir 200 leiki að baki með danska landsliðinu og þar af eru um 20 gegn Íslandi. Við virðumst alltaf spila við þá,“ sagði Lindberg í samtali við Vísi í gær.

„Það er ekkert sérstakt fyrir mig að spila við Ísland frekar en önnur lið. Þetta snýst um 16-liða úrslitin, spila eins vel og við getum og komast áfram í 8-liða úrslitin.“

Hann hefur ekki heldur áhyggjur af því að Guðmundur Guðmundsson muni eiga í erfiðleikum að spila gegn Íslandi. „Hann er búinn að vera að horfa á myndbandsupptökur í alla nótt og við njótum góðs af þeirri miklu vinnu sem hann leggur á sig. Markmið okkar nú er að sýna okkar besta og vinna leikinn.“

Lindberg segir að Danir gefi lítið út á allt tal um að Danir séu sigurstranglegri aðilinn í leiknum. Það skipti engu máli.

„Íslendingar eru góðir og alltaf hættulegur andstæðingur. Þetta eru tvö lið sem þekkjast mjög vel og þekkja styrkleika og veikleika hvors annars.“

„Það er kostur fyrir íslenska liðið að þekkja Guðmund og það sem hann gerir. En við munum auðvitað lítast til þess að nýtta okkur þekkingu Guðmundar á íslenska liðinu og vonandi gefur það okkur forskot.“

„En í grunninn eru þetta tvö lið sem munu eigast við í 60 mínútur enda leikir gegn Íslandi alltaf jafnir og spennandi.“

Lindberg segist sáttur við stöðu danska liðsins miðað við frammistöðuna til þessa. „Við höfum ekki tapað leik til þessa en urðum af tveimur stigum með því að gera jafntefli við Argentínu og Þýskaland.“

„En þetta er langt mót og gott að slæmu leikirnir okkar komu ekki í útsláttarkeppni. Þá værum við úr leik. Við höfum náð að bæta okkur síðan þá og átti fleiri og lengri góða kafla með hverjum leiknum. Vonandi höldum við áfram á þeirri braut.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×