Handbolti

Umfjöllun: Svíþjóð - Ísland 24-16 | Hörmungarbyrjun strákanna í Katar

Eiríkur Stefán Ásgeirson í Doha skrifar
vísir/eva björk
Óhætt er að segja að Ísland hafi farið illa af stað á heimsmeistaramótinu í handbolta. Strákarnir okkar mættu Svíum í Al Sadd höllinni í Doha og steinlágu, 24-16.

Eva Björk Ægisdóttir, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis á mótinu, tók myndirnar sem fylgja umfjölluninni.

Helstu sóknarmenn íslenska liðsins og stærstu stjörnurnar voru svo ólíkir sjálfum sér að annað eins hefur vart sést í einum og sama leiknum. Aron Pálmarsson, Alexander Petersson og Guðjón Valur Sigurðsson áttu eina sínu verstu landsleiki í langan tíma og við það komst sóknarleikur Íslands aldrei almennilega í gang.

Þó svo að vörn og markvarsla hafi oft á tíðum verið þokkaleg náðu Svíar snemma forystu sem þeir létu aldrei af hendi. Strákarnir voru fimm mörkum undir í hálfleik og aldrei nálægt því að ógna forystunni í síðari hálfleik.

Mattias Andersson átti stórleik í marki Svía en leikáætlun þeirra gekk fullkomnlega upp. Þeim tókst að að draga allar vígtennur úr íslensku sókninni og eftirleikurinn var auðveldur.

Andersson var gjörsamlega óstöðvandi í markinu, en hann varði 21 skot í leiknum eða 57 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Björgvin Páll varði 14 skot eða 37 prósent.

Leikurinn byrjaði hreint skelfilega fyrir okkar menn. Svíar komust í 2-0 forystu eftir að hafa komist inn í línusendingu Arons og var uppskrift leiksins nákvæmlega eftir þeirra höfði. Þeir ætluðu að spila þéttan varnarleik og þvinga strákana í erfið skot sem Andersson myndi taka.

Lengst af gekk það eftir. Ísland komst reyndar í tvöfalda yfirtölu og jafnaði metin í 2-2 eftir hana en sóknarleikur liðsins var í molum. Aron Kristjánsson tók leikhlé eftir þrettán mínútur en það hafði ekkert að segja.

Eftir rúman stundarfjórðung var staðan 7-2 og svo 9-3, enn eftir mistök Arons. Það var ekki fyrr en að Alexander skoraði í undirtölu og þar með fjórða mark Íslands að eini góði kafli fyrri hálfleiks fór í gang. Ísland skoraði þrjú mörk í röð, minnkaði muninn í 9-6 en þá tóku Svíar aftur völdin og skoruðu þrjú af síðustu fjórum mörkum fyrri hálfleiksins. Staðan 12-7 að honum loknum.

Björgvin Páll varði sjö skot í fyrri hálfleik og bjargaði því að Svíar náðu einfaldlega ekki að gera út um leikinn í fyrri hálfleik. Íslenska vörnin átti fínan fyrri hálfleik sömuleiðis en á meðan sóknarleikur Íslands var einfaldlega óboðlegur var það ekki til mikils.

Arnór Atlason kom þó inn af ágætum krafti undir lok hálfleiksins og hleypti einhverju lífi í sóknina. Arnór skoraði þrjú mörk í fyrri hálfleik en aðrir eitt eða ekkert.

Mattias Andersson átti stórleik í marki Svía en naut þess að hafa öfluga vörn fyrir framan sig sem íslenska sóknin átti í miklum erfiðleikum með. Andersson varði tíu skot í fyrri hálfleiknum og var með 59 prósenta hlutfallsmarkvörslu.

Björgvin Páll varði fyrsta skot síðari hálfleiksins, rétt eins og þess fyrri, en það átti litlu eftir að breyta. Það var þó aðeins meiri fjölbreytni og barátta í sókninni en leikur íslenska liðsins komst aldrei almennilega í gang. Svíarnir héldu okkar mönnum í öruggri fjarlægð.

Það gekk allt á afturfótunum. Arnór Þór skaut í stöng úr víti, hraðaupphlaupsógning var engin - þó svo að í tvígang hafi dómarar leiksins stöðva hraðaupphlaup Íslands að ástæðulausu. Til að toppa allt saman hnakkrifust Ásgeir Örn og Björgvin Páll um miðjan síðari hálfleikinn.

Mestu máli skipti að skytturnar okkar frábæru, Aron og Alexander, voru svo langt frá sínu besta að það nær ekki nokkurri átt. Skotin voru víðsfjarri og sendingarnar margar í sama gæðaflokki. Sænska vörnin er góð - en hún er ekki svona góð.

Sænska vörnin og slakur íslenskur sóknarleikur lét Mattias Andersson líta stórkostlega út í marki Svía. En hann bætti heilmiklu við eins og markverðir í hans gæðaflokki gera. Varin víti og varin dauðafæri voru til staðar og í slíkum tilfellum er það borin von að ætla að koma til baka úr vonlausri stöðu.

Arnór Atlason var sá eini sem eitthvað gerði að viti í sóknarleik Íslands. Vörnin átti ágæta spretti og Björgvin Páll sömuleiðis í markinu. En þá er það upptalið. Þrátt fyrir sýnilegan baráttuvilja strákanna var allt of margt í ólagi.

Vonum að fall sé fararheill í Katar því þessi byrjun gefur allt annað en góð fyrirheit fyrir þáttöku Íslands í heimsmeistarakeppninni.

Ekki missa af neinu sem gerist á HM. Fylgdu Vísi á Twitter, Facebook og Snapchat (notendanafn:sport365).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×