Innlent

VR stefnir ríkinu vegna breytinga á atvinnuleysisbótum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ólafía B. Rafndóttir, formaður VR.
Ólafía B. Rafndóttir, formaður VR.
VR hefur stefnt íslenska ríkinu vegna breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar sem komu til framkvæmda um áramótin en þetta kemur fram í tilkynningu frá VR.

Stefnan var lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 2. janúar sl. og hefur félagið óskað eftir flýtimeðferð. Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, segir félagið ekki hafa séð annan kost í stöðunni en höfða mál til að fá ákvörðun ríkisins um lagabreytingarnar hnekkt.

Eins og Fréttablaðið greinir frá í dag þá ætlar einn af þeim rúmlega 500 atvinnuleitendum sem hefur verið ýtt út af bótaskrá vegna nýrrar lagasetningar um styttri bótatíma ætlar að sækja rétt sinn.

VR telur að íslenska ríkinu hafi verið óheimilt að skerða rétt félagsmanna til atvinnuleysisbóta með því að stytta bótatímabilið um sex mánuði, eins og gert var með breytingum á lögum um atvinnuleysistryggingar.

„Skerðing á bótarétti atvinnuleysistrygginga, með nær engum fyrirvara, kippir fótunum undan fjölda félagsmanna VR. Okkar hlutverk er að verja réttindi félagsmanna og gæta hagsmuna þeirra. Ábyrgð okkar er skýr, við sáum engan annan kost í stöðunni en höfða mál til að fá þessari ákvörðun hnekkt,“ segir Ólafía, formaður VR og varaforseti ASÍ.

Ólafía bendir á að árið 2006, þegar bótatímabilið var stytt úr fimm árum í þrjú, hafi löggjafinn séð til þess að atvinnulausum var gefinn aðlögunartími þannig að ekki kæmi til afturvirkrar skerðingar. Svo sé ekki raunin nú.

Félagsmenn VR eru um þrjátíu þúsund, af þeim voru tæplega eitt þúsund á atvinnuleysisskrá um áramótin. Ólafía bendir á að 81 félagsmaður VR hafi misst rétt til atvinnuleysisbóta þann 1. janúar sl. en alls hafi um 500 einstaklingar misst bótaréttinn um áramótin þegar litið er til vinnumarkaðarins í heild sinni.

Í stefnunni bendir VR á að breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, sem tóku gildi þann 1. janúar sl., hafi ekki verið í samræmi við meginreglur stjórnskipunar um réttaröryggi og fyrirsjáanleika. Eignaréttur þeirra sem þegar fá atvinnuleysisbætur hafi verið skertur með afturvirkum og ólögmætum hætti og gengið hafi verið gegn réttaröryggi þeirra.

Lagasetningin hafi verið byggð á ómálefnalegum forsendum og ekki verið gætt meðalhófs. Með því að höfða mál er ætlun félagsins að koma í veg fyrir að breytingarnar gildi um félagsmenn VR. Hér að neðan er stiklað á stóru um helstu málsástæður.

Brot gegn stjórnarskrá

Réttur til aðstoðar vegna atvinnuleysis er meðal grundvallarréttinda í stjórnarskránni þar sem segir að með lögum skuli tryggja öllum sem þess þurfa rétt til aðstoðar. Íslenska ríkið hefur ekki frjálst mat um hvernig og hversu mikil aðstoð er veitt vegna atvinnuleysis og er óheimilt að ákveða að réttinum til atvinnuleysisbóta sé breytt á ósanngjarnan, íþyngjandi og afturvirkan hátt. VR telur að breytingarnar á lögunum um atvinnuleysistryggingar gangi gegn 76. gr. stjórnarskrár Íslands.

Eignaréttindi skert

Í tilkynningunni segir að áunnin réttindi til greiðslna teljast eign sem njóti verndar eignaréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. „Þeir, sem þegar hafa fengið atvinnuleysisbætur á grundvelli þeirrar forsendu að rétturinn sé til allt að þriggja ára, eiga rétt á því að þær forsendur haldist. Það er mat VR að réttindi þeirra sem fengu atvinnuleysisbætur við gildistöku laganna 1. janúar 2015 hafi verið skert með óstjórnskipulegum hætti enda var skilyrðum fyrir skerðingu ekki fullnægt,“ segir í tilkynningu VR.

Ástæður breytinganna eru að lækka eigi útgjöld ríkissjóðs. „Þær ástæður réttlæta ekki að mati VR svo íþyngjandi og afturvirkar skerðingar sem hér um ræðir. Atvinnuleysistryggingasjóður er fjármagnaður með atvinnutryggingagjaldi. Ekkert liggur fyrir um að tryggingagjald hafi hætt að duga fyrir rekstri sjóðsins og bendir raunar allt til hins gagnstæða. Stjórnvöld hafa ekki sýnt fram á nein tengsl milli skerðingarinnar og málefnalegra ástæðna þannig að réttlæta megi skerðingu þeirra hagsmuna sem sjóðnum er ætlað að tryggja.“

Ónógur fyrirvari og engin aðlögun

Almennt má gera ráð fyrir því að í lagasetningu sé gætt að réttaröryggi, fyrirsjáanleika og stöðugleika.

„Að mati VR eru breytingarnar á lögunum verulega íþyngjandi gagnvart fjölda fólks og því verður að gera þá kröfu til ríkisins að haga gildistöku þeirra þannig að einstaklingar hafi raunhæft tækifæri til að gera viðeigandi ráðstafanir og gæta hagsmuna sinna. Svo var ekki í þessu tilfelli, að mati VR.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×