Viðskipti innlent

Eru Íslendingar að gefa náttúruauðlindir sínar?

ingvar haraldsson skrifar
Hagfræðingurinn Jón Steinsson og samfélagsrýnirinn Jóhannes Björn Lúðvíksson eru sammála um að Íslendingar geti fengið mun meiri arð af náttúruauðlindum sínum en þeir gera nú.
Hagfræðingurinn Jón Steinsson og samfélagsrýnirinn Jóhannes Björn Lúðvíksson eru sammála um að Íslendingar geti fengið mun meiri arð af náttúruauðlindum sínum en þeir gera nú. vísir/gva/vilhelm
„Dapurleg staða íslensks launafólks er óþolandi vegna þess að landið er feikilega ríkt og lífskjör almennings ættu að vera með því besta sem þekkist í heiminum,“ segir Jóhannes Björn Lúðvíksson, samfélagsrýnir og höfundur bókarinnar Falið vald, í pistli sem hann ritar á Stundin.is.

„Stór hluti Íslendinga vinnur fyrir launum sem standa ekki undir mannsæmandi lífskjörum. Meira að segja fólk sem hefur stundað nám á háskólastigi árum saman getur ekki skrimt af laununum ef það er eina fyrirvinna heimilisins og þarf að fæða og klæða eitt eða fleiri börn,“ segir Jóhannes.

Jóhannes telur þessa stöðu skammarlega því nær hvergi í veröldinni séu til aðrar eins auðlindir og hér á landi. „Hvergi í heiminum, nema þar sem olían vellur upp úr jörðinni, á svo fámennur og vel upplýstur hópur slíka gnótt verðmæta. Hitt er líka staðreynd að hvergi á norðurhveli jarðar hefur spilling og óstjórn staðið þegnunum eins fyrir þrifum og á Íslandi,“ segir Jóhannes.

Jón Steinsson hefur talað fyrir því að kvótinn yrði boðinn upp og auka þannig tekjur ríkisins verulega.vísir/vilhelm
Segir svo siðlaust að það hljóti að vera séríslenskt

Hann telur að ef Íslendingar nýttu náttúruauðlindir sínar með sómasamlegum hætti ættu Íslendingar að geta haft það mun betur en þeir gera nú. „Kvótakerfið er svo siðlaust að það getur aldrei orðið annað en séríslenskt undur,“ segir Jóhannes og bætir við að auka mætti tekjur ríkisins af sjávarútvegsauðlindinni um 10 til 15 milljarða á ári.

Þar fái menn lánaðan nýtingarrétt á sameign þjóðarinnar á „tombóluprís“ að sögn Jóhannesar. „Þó kastar tólfunum þegar leigutakar kvótans rústa atvinnulífi þorpa út um allt land ef þeir geta grætt á því. Fráskildir makar fá hundruð milljóna eða milljarða út á sameign þjóðarinnar og ófædd börn eiga gífurleg verðmæti í óveiddum afla framtíðarinnar,“ bæti hann við.

Sjá einnig: Hvers vegna eru laun á Íslandi lág?

„Ef eitthvað í líkingu við eyðileggingu þorpa, sem fólk hefur verið að byggja upp í áratugi, gerðist á hinum Norðurlöndunum tækju stjórnvöld strax í taumana, en á Íslandi virðast pólitíkusar ekki þurfa að axla neina samfélagslega ábyrgð … eða yfir höfuð nokkra ábyrgð eins og bankahrunið sýndi okkur,“ segir Jóhannes.

Íslendingar sitja á gullnámu

Hagfræðingurinn Jón Steinsson hefur einnig bent á að Íslendingar geti orðið ríkari en Norðmenn nýti þeir auðlindir sínar betur. „Útgerðarmenn eru að fá náttúruauðlindina langt undir markaðsverði,“ sagði Jón Steinsson fyrir skömmu í viðtali við Bítið á Bylgjunni. Hagfræðingurinn hefur talað fyrir því að kvótinn yrði boðinn upp á markaði og almenningur fengi að njóta góðs af ágóðanum í formi hærri ríkistekna.

Sjá einnig: Segir íslenskt atvinnulíf byggt á illri meðferð á starfsfólki

Þá sé önnur auðlind á Íslandi mun verðmætari, orkan sem fellst í vatnsaflinu. Þar sé hægt að skapa mun meiri verðmæti ef hugarfarið breytist. Jón líkir því við að ef Íslendingar ættu gullnámu en hefðu bara áhuga á að fá vinnu við að grafa gullið upp í stað þess að selja gullið.

Undir þetta tekur Jóhannes. „Við erum vissulega að selja stórfyrirtækjum orkuna á fáránlega lágu verði. Jón talar um margfalt hærra verð á Bretlandseyjum og að orkusala þangað í gegnum sæstreng sé frekar auðvelt verkefni,“ segir hann og bætir við: „Gullið sjálft, orkan, hefur hins vegar alltaf verið hálfgert aukaatriði og útsöluvara.“

Jóhannes segir kerfið ónýtt og einungis ný stjórnarskrá geti bjargað því.vísir/valli
Segir kerfið vera ónýtt

Jóhannes segir meirihluta Íslendinga vera mótfallna bæði kvótakerfinu og einkavæðingu Landsvirkjunar. Hins vegar sé „líkt og ósýnileg hönd haldi kerfinu óbreyttu og sé jafnvel að takast að sölsa undir sig fiskinn um alla framtíð,“ segir Jóhannes.

Jóhannes bendir á að þrátt fyrir allt sé það fólkið sem kjósi stjórnmálamennina á þing. Hins vegar séu sveiflur í fylgi flokkanna sífellt að aukast og sífellt fleiri séu búnir að fá nóg af ástandinu. „Kerfið er ónýtt og verður ekki lagfært nema með nýrri stjórnarskrá. Raunverulegir ráðamenn þjóðarinnar gera sér fulla grein fyrir þessu og þess vegna lögðu þeir hart að sér við að grafa stjórnarskrá fólksins,“ segir Jóhannes að lokum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×