Viðskipti innlent

Hrun á húsnæðisverði hættulegra en hlutabréfabóla

Ingvar Haraldsson skrifar
Peter Westaway sagði hrávöruútflytjendur þá sem tapa mestu á minni hagvexti í Kína.
Peter Westaway sagði hrávöruútflytjendur þá sem tapa mestu á minni hagvexti í Kína. fréttablaðið/gva
Hrun á kínverskum fasteignamarkaði hefði mun alvarlegri afleiðingar en sú verðlækkun sem hefur átt sér stað á kínverskum hlutabréfamarkaði. Þetta sagði Peter Westaway, yfirhagfræðingur og forstöðumaður fjárfestinga hjá Vanguard í Evrópu, á fundi VÍB um fjárfestingar eftir afnám hafta.

Westaway benti á að um helmingur af auði Kínverja væri bundinn við húsnæði en aðeins níu prósent við hlutabréf.

Hrun á fasteignamarkaðnum hefði gífurlegar afleiðingar fyrir heimshagkerfið. Muni fasteignaverð lækka jafn mikið og gerðist árið 2009 í Bandaríkjunum gæti hagvöxtur í Kína orðið neikvæður.

Westaway telur þó ekki að svo skörp verðlækkun verði raunin þótt einhverjar verðlækkanir muni eiga sér stað. Kínverski seðlabankinn hafi enn svigrúm til að lækka stýrivexti og blása þannig frekara lífi í kínverska hagkerfið.

Þá benti hann á að útflutningur til Kína væri lítill hluti af heildarútflutningi Evrópuríkja. Til að mynda fari innan við tíu prósent af útflutningi Þjóðverja til Kína.

Hægari vöxtur í kínverska hagkerfinu hafi þó mikil áhrif á ríki sem treysta á útflutning á hrávörum enda hafi Kína haft gífurlega þörf fyrir hrávörur vegna þeirrar uppbyggingar sem átt hafi sér stað þar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×