Innlent

Ráðum engu um verðmyndun í milljarða afurðaflokki

svavar hávarðsson skrifar
Vestmannaeyingar taka á móti miklu magni til bræðslu árlega.
Vestmannaeyingar taka á móti miklu magni til bræðslu árlega. fréttablaðið/óskar
Sölumálum á fiskimjöli og lýsi á Íslandi gæti verið betur borgið á hendi öflugra sölusamtaka. Þrátt fyrir mikla framleiðslu ræður Ísland engu um verðmyndun mjöls og lýsis á heimsmarkaði. Samþjöppun fyrirtækja á fáar hendur í Skandinavíu hafa fætt af sér risafyrirtæki sem setja verðið fyrir íslenska framleiðendur.

Á þetta bendir Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Fiskimiða og formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, en hagsmunirnir eru miklir. Á árunum 2011 til 2013 voru útflutningsverðmæti mjöls og lýsis um 110 milljarðar króna eða 12 til 16% af útflutningsverðmætum sjávarútvegsins í heild.

Jens Garðar Helgason
„Ef Pelagia setur verð á skandinavíska markaðnum þá er voðalega lítið sem við getum hreyft það til hefðbundinna kaupenda okkar, svo dæmi sé tekið,“ segir Jens Garðar og vísar til norska sjávarútvegsfyrirtækisins Pelagia sem á orðið allan fiskimjöls- og lýsisiðnaðinn í Noregi.

Fyrirtækið er einnig búið að kaupa upp verksmiðjur í Danmörku, og hefur tryggt sér allar verksmiðjurnar í Bretlandi og á Írlandi. Í dag á Pelagia níu af tíu fiskimjölsverksmiðjum landanna og rekur sextán uppsjávarfrystihús.

Fimm fyrirtæki annast sölu á mjöli og lýsi frá Íslandi, en verksmiðjurnar eru ellefu talsins.

„Ég hef talað fyrir því að Íslendingar skoði sölumálin sameiginlega því eins og málum er háttað í dag erum við algjörir verðþegar á markaðnum. Það er kominn tími til að setjast niður og skoða hvort Íslendingar geti unnið betur saman og komið fram sem sterkari heild í sölumálum á alþjóðavísu,“ segir Jens Garðar.

Blikur á lofti á mjöl- og lýsismarkaði

Fréttir berast nú af því að veðurfyrirbrigðið El Niño, sem í mikið einfaldaðri mynd stendur fyrir miklum frávikum í sjávarhita í austanverðu Kyrrahafi, sé líklegt til að hafa meiri áhrif en mörg undanfarin ár, en við þessu varar m.a. bandaríska haf- og loftslagsstofnunin (NOAA).

Lengi voru fréttir sem þessar jákvæðar, enda hrynur jafnan veiði á ansjósu í Perú í kjölfarið, en þeir eru langstærstu mjöl- og lýsisframleiðendur heims og byggja á þeim veiðum. Verð á afurðum annarra framleiðenda hækkar jafnan í kjölfarið, en breytingar á undanförnum árum í fóðurframleiðslu benda til að fréttirnar nú séu sætsúrar.

Til að mæta minna framboði af mjöli og lýsi hafa fóðurframleiðendur minnkað innihald mjöls og lýsis í uppskriftum sínum. Þeir hafa farið úr 35-50% niður í 8-12%, og stefna á 5-6% innihald. Með þessu verja fóðurframleiðendur sig líka fyrir miklum sveiflum í veiðum og gegn verðsveiflum með því að leita í sojamjöl og repjuolíu í staðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×