Innlent

Leki kom að báti við Grindavík

Birgir Olgeirsson skrifar
Grindavík. .
Grindavík. . Fréttablaðið/Valli
Leki kom að vélarrúmi báts sem var við veiðar um 9 sjómílur austur af Grindavík en skipverjar óskuðu eftir aðstoð á sjötta tímanum í morgun.  Þá höfðu dælur bátsins naumlega undan við að dæla sjó úr skipinu en lítið þurfti út af að bregða til að svo yrði ekki.

Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík var kölluð út og fór á staðinn á björgunarskipinu Oddi V. Gíslasyni og björgunarbátnum Árna í Tungu. Aðstoðar var einnig óskað frá Slökkviliði Grindavíkur til að auka dælugetu björgunarliðsins.
 
Rétt um klukkan 06:00, eða um hálfri klukkustund eftir að aðstoðarbeiðni barst frá skipverjum, sem eru þrír, var björgunarbáturinn Árni í Tungu kominn á staðinn með dælur.
 
Báturinn siglir nú fyrir eigin vélarafli til hafnar í Grindavík í fylgd björgunarskipanna. Dælur hans hafa enn undan lekanum. Gert er ráð fyrir að skipin verði komin til hafnar klukkan ríflega 07:30 og að þá verði leki báturinn hífður á land svo hægt sé að kanna hvað olli lekanum og gera við hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×