Innlent

Læknir hóf söfnun fyrir aðgerðarþjarka

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Aðgerðarþjarkinn var formlega tekinn í notkun í gær. Kristján Þór Júlíusson og Páll Matthíasson sjást hér prufukeyra tækið.
Aðgerðarþjarkinn var formlega tekinn í notkun í gær. Kristján Þór Júlíusson og Páll Matthíasson sjást hér prufukeyra tækið. Fréttablaðið/Valli
„Þetta var maður á mann aðferðafræði. Það eru hátt í 300 einstaklingar og félagasamtök sem hafa lagt málinu lið,“ segir Eiríkur Jónsson, yfirlæknir þvagfæraskurðlækninga á Landspítala.

Í gær var formlega tekinn í notkun á Landspítalanum fyrsti skurðaðgerðaþjarkinn. Aðgerðarþjarkinn nýtist til margvíslegra skurðaðgerða, sérstaklega þó við þvagfæraskurðlækningar og aðgerðir á grindarholslíffærum kvenna.

Aðgerðir með þjarkanum eru inngripsminni en ella, bati er skjótari og betur er hægt að hlífa nærliggjandi líffærum og viðkvæmri starfsemi.

Árið 2013 var, fyrir tilstilli Eiríks, stofnaður söfnunarsjóður aðgerðarþjarka fyrir Landspítala. Sjóðurinn gerði samkomulag um að ef tækist að safna fyrir helmingnum þá myndi spítalinn borga hinn helminginn.

Eiríkur hóf söfnunina í því skyni að læknar sem hefðu lært á þjarkann í nágrannalöndunum myndu vilja starfa hér heima.

„Við byrjuðum þetta fyrir um tveimur árum. Ég leitaði til Brynjólfs Bjarnasonar framkvæmdastjóra sem leiddi til þess að það var stofnaður sérstakur söfnunarsjóður um þetta verkefni sem hafði það eina markmið að safna fyrir áhaldinu, að minnsta kosti að helmingi til,“ segir Eiríkur.

Upphaflega stóð til að safna 110 milljónum en tækist það ekki yrði sjóðurinn lagður niður og þeim fjármunum sem hefði verið safnað skilað. Söfnunin gekk þó vonum framar og söfnuðust 137,5 milljónir. Heildarstofnkostnaður er um 230 milljónir.

Eiríkur sjálfur mun ekki nota tækið þar sem hann hefur ekki lært á það. Hann vildi hins vegar tryggja að hér yrðu færir læknar.

„Ég lít svo á að það sé ný kynslóð sem taki þetta að sér. Mér er það mjög mikilvægt að keflið rúlli áfram. Þetta er bara mitt erindi sem forsvarsmaður þessarar tegundar læknisfræði, að þetta komist á koppinn,“ segir hann.

„Þetta er verkfæri og tækni sem hefur verið að ryðja sér til rúms síðustu tíu árin austan hafs og vestan. Við erum að fara inn í nútímann með þetta. Ég hef fengið til starfa hér lækna sem hafa reynslu af þessu.

Þetta er ekki bara spurning um að taka inn ný áhöld heldur viljum við líka fá fólk sem kann með þau að fara og vill koma hingað að vinna. Og það er að takast með þessu nokkuð augljóslega,“ segir Eiríkur en eftir tilkomu tækisins hafa íslenskir skurðlæknar sem hlotið hafa þjálfun á þessu sviði erlendis ákveðið að flytja til landsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×