Innlent

Ríflega 40 hjúkrunarfræðingar hættir

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Í sumar sagði 291 hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum upp störfum vegna kjaradeilu þeirra og ríkisins. Eftir að gerðardómur úrskurðaði um kjör hjúkrunarfræðinga í ágúst drógu fjölmargir hjúkrunarfræðingar uppsagnir sínar til baka.
Í sumar sagði 291 hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum upp störfum vegna kjaradeilu þeirra og ríkisins. Eftir að gerðardómur úrskurðaði um kjör hjúkrunarfræðinga í ágúst drógu fjölmargir hjúkrunarfræðingar uppsagnir sínar til baka. vísír/vilhelm
Rúmlega fjörtíu hjúkrunarfræðingar sem sögðu upp störfum í kjaradeilunni við ríkið hafa látið af störfum. Flestir þeirra hættu á miðnætti.

Í sumar sagði 291 hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum upp störfum vegna kjaradeilu þeirra og ríkisins. Eftir að gerðardómur úrskurðaði um kjör hjúkrunarfræðinga í ágúst drógu fjölmargir hjúkrunarfræðingar uppsagnir sínar til baka. Það gerðu þó ekki allir og hefur 41 hjúkrunarfræðingur þegar látið af störfum á spítalanum. Þá hafa um þrjátíu hjúkrunarfræðingar til viðbótar ekki dregið uppsagnir sínar til baka. Vonir standa þó til að einhverjir þeirra kunni að gera það þó þær hafi átt að koma til framkvæmda í dag.

„Þetta fór nú kannski í við betur heldur en að við höfðum þorað að vona á tímabili en engu að síður að þá eru umtalsverð afföll. Þannig að við erum með staðfest að það eru um 14% af þeim hjúkrunarfræðingum sem sögðu upp að þeir hafa staðið við þær uppsagnir, en við erum ennþá að bíða eftir svona lokaniðurstöðu og þessi tala getur farið alveg upp í 20%,“ segir Sigríður Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum.

Heilbrigðisstarfsfólk hefur áður gripið til uppsagna í tengslum við kjaradeilur. „Við höfum séð svona stórar uppsagnir áður en við höfum mest séð á eftir á bilinu 5-10% af starfsmönnum í þeim uppsögnum. Þannig að þetta er meira heldur en við höfum séð áður,“ segir Sigríður.

Sigríður segir uppsagnirnar dreifast nokkuð jafnt á deildir spítalans. „Miðað við það hvernig uppsagnirnar litu hér út um mitt sumar að þá er þetta náttúrulega miklu betra heldur en á horfðist og þá vorum við líka að horfa til þess að það væru heilu einingarnar sem að væru að hætta, en núna er niðurstaðan í raun og veru sú að uppsagnirnar eru dreifðar á starfseiningar. Þannig að þetta er ekki svona stórfelld ógn fyrir svona afmarkaða þætti starfseminnar,“ segir Sigríður.

Tæplega 1.400 hjúkrunarfræðingar hafa starfað á spítalanum síðustu misseri. Áður en til uppsagnanna kom vantaði 100 hjúkrunarfræðinga til starfa á spítalanum og því ljóst að mikið mæðir á þeim sem eftir eru. Sigríður segir að allt verði reynt til að koma í veg fyrir að þjónustan við sjúklingana skerðist vegna uppsagnanna. „Við vonum nú að til þess komi ekki,“ segir Sigríður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×