Skoðun

150 milljónir til höfuðs fríkirkjum?

Hjörtur Magni skrifar
Frjálsar kristnar kirkjur og grasrótarsöfnuðir hafa vaxið verulega og telja nú tugi þúsunda Íslendinga. Allir kristnir ættu að fagna því. Þjóðkirkjustofnanir eru víðast hvar á undanhaldi í þeim löndum þar sem þær enn fyrirfinnast. Það er eðlileg þróun í hinum kristna heimi.

Þjóðkirkjan fær enn milljarða ár hvert, umfram aðrar íslenskar lúterskar kirkjur sem ættu að njóta þess sama samkvæmt stjórnarskrá.

Þeir sem segja að aðskilnaður hafi þegar átt sér stað milli ríkis og þjóðkirkjustofnunarinnar láta sem lúterskar fríkirkjur séu ekki til. Sá kirkjusögulegi arfur jarðeigna sem veldur þessari hróplegu mismunun er auðvitað arfur allra kristinna Íslendinga.

Nú hefur kirkjuþing hinnar ríkisreknu þjóðkirkju ákveðið að veita 150 milljónir til að fjölga í þjóðkirkjunni. Hvaðan skyldu þær sálir eiga að koma?

Það eru nokkrir hópar sem koma til greina. Sá hópur fólks sem stækkað hefur hraðast undanfarin ár er utan trúfélaga. Margir þar hafa fengið alveg upp í kok af ótrúverðugri og ókristilegri framgöngu afturhaldssamra trúarstofnana. Það væri erfiður kristniboðsakur.

Skyldi markið sett á innflytjendur og flóttamenn sem margir eru múslimar eða kaþólskir? Það er erfiður akur.

Langlíklegasti markhópurinn fyrir 150 milljóna „kristniboðsátakið“ eru kristnu fríkirkjurnar sem hafa vaxið svo mjög. Hver er þá staða Fríkirkjunnar í Reykjavík andspænis slíku milljóna áhlaupi?

Jú, við höfum 62. gr. Stjórnarskrár Íslands okkur til varnar. Þar er fjallað um Fríkirkjuna í Reykjavík! Á þremur öldum hefur hún starfað og alltaf verið evangelísk lútersk.

Frumlag 62. gr. er hin evangelíska lúterska kirkja en alls ekki þjóðkirkjustofnunin. Allt frá stofnun Fríkirkjunnar árið 1899 var hún og er íslensk grasrótarhreyfing og hluti af sjálfstæðisbaráttu landsmanna á meðan þjóðkirkjustofnunin var í raun leifar af dönsku stjórnsýsluapparati með sínum landfræðilegu sóknarmörkum og embættismannakerfi. Fríkirkjan hefur aldrei afsalað sér sínum kirkjusögulega arfi sem hún á rétt á samkvæmt stjórnarskrá. En þjóðkirkjan heldur henni nú utangarðs. Sporin hræða.

Sjálfvirk útskráning

Á fyrrihluta síðustu aldar voru bara tvær kirkjur í Reykjavík og um helmingur íbúanna tilheyrði Fríkirkjunni. Síðan eftir miðja öldina þegar hverfis­kirkjur þjóðkirkjunnar fóru að rísa þá var í bakherbergi ráðuneytisins búin til lítil reglugerð. Reglugerðin fól það í sér að ef fríkirkjufólk flutti lögheimili sitt þá var það sjálfkrafa skráð í þjóðkirkjuna. Fæstir vissu af þessari breytingu og því voru þúsundir Íslendinga teknir af skrá Fríkirkjunnar og settir í Þjóðkirkjuna án vitundar eða samþykkis. Trúfélagsgjöldin runnu því óhindrað til þjóðkirkjustofnunarinnar í áratugi. Í dag teldist þetta argasta mannréttindabrot. Reglugerðin olli því að þjóðkirkjan fékk aftur drottnandi stöðu.

2001 Gullið og asninn á kirkjuþingi

Á kirkjuþingi árið 2001 var rætt um að gera lútersku fríkirkjunum tilboð sem þær gætu ekki hafnað. Þær áttu að fá að ganga inn í þjóðkirkjuna. Það var alls ekki gert að beiðni fríkirknanna heldur óttuðust þjóðkirkjumenn að fríkirkjur ættu rétt á að sækja á eigin forsendum í digra sjóði. Það vildu þeir fyrirbyggja. Í umræðum kirkjuþingsmanna var talað um kristilegt grasrótarstarf af mikilli fyrirlitningu og háði. Kirkjuþingsmennirnir höfðu miklar efasemdir um að hleypa fríkirkjum að „sínum kirkjueignum“. Fríkirkjufólki var líkt við asna sem stendur utan við borgarmúrana.

Kirkjuþingsmennirnir ræddu sín á milli hvernig hægt væri að lokka asnann inn fyrir borgarmúrinn (þ.e. í þjóðkirkjuna), ná gullinu (trúfélagsgjöldunum) af baki hans en senda asnann síðan aftur út fyrir borgarmúrinn þar sem hann ætti helst heima.

Árið 2003 hvatti formaður prestafélagsins alla þjóðkirkjupresta til að skrá sem flesta úr frjálsum kristnum trúfélögum og inn í þjóðkirkjuna. Hvatinn var að fá fleiri stöðugildi frá ríkinu, meiri pening umfram önnur trúfélög. Enn í dag reyna sumir þjóðkirkjuprestar að fá fríkirkjufólk til að skrá sig yfir.

Þegar stofnunin ræðst gegn grasrótinni eru góð ráð dýr. Legg ég því til að í stað þess að þjóðkirkjan setji milljónirnar til höfuðs okkur að hún afhendi kristnum fríkirkjum 150 milljónirnar til ráðstöfunar. Það væri þá loks í anda þess Jesú Krists sem stofnunin kennir sig við. Sú upphæð er aðeins örlítið brotabrot af öllum kirkjusögulegum arfi fríkirkjufólks sem ríkiskirkjan hefur haldið fyrir sjálfa sig. Þær milljónir munum við nota til að efla grasrótarkristni á Íslandi í anda víðsýni og umburðarlyndis. Við munum fagna fjölbreytileika mannlífsins og vinna að því að sameina í stað þess að sundurgreina. Við munum ekki líta til kaþólsku miðaldakirkjunnar sem fyrirmyndar heldur til þess Jesú Krists sem var í nöp við trúarstofnanir og lifði og starfaði í grasrótinni.




Skoðun

Skoðun

Tjáningar­frelsi

Laufey Brá Jónsdóttir,Sigríður Kristín Helgadóttir,Þorvaldur Víðisson skrifar

Sjá meira


×