Skoðun

Hraðvirkustu almenningssamgöngurnar

Jón Karl Ólafsson skrifar
Það er hverju landi nauðsynlegt að búa yfir góðu og öruggu samgöngukerfi sem tengir landshlutana saman. Það er sérstaklega mikilvægt í harðbýlu landi eins og Íslandi, þar sem fjarlægðir geta oft verið miklar. Það hvernig samgöngunum er háttað er pólitísk ákvörðun, hvort fólk ferðist um á eigin vegum eða hvort stjórnvöld komi að uppbyggingu og rekstri kerfis almenningssamgangna.

Engum blöðum er um það að fletta að flug er hraðvirkasta og skilvirkasta almenningssamgangnakerfið. Sé það vilji ráðamanna, og þjóðarinnar, að halda uppi góðum almenningssamgöngum um landið er því einboðið að byggja innanlandsflugið upp.

Þar kemur Isavia að málum sem rekstraraðili flugvalla. Isavia hefur markvisst unnið að því undanfarin ár að markaðssetja Ísland sem áfangastað í alþjóðlegum flugleiðum. Það hefur skilað sér í mikilli aukningu umferðar um Keflavíkurflugvöll, en það eflir einnig innanlandsflugvellina.

Sú ánægjulega staða er nú komin upp að um tvo þeirra, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll, verður alþjóðleg umferð flugvéla á næsta ári. Einnig hefur ríkisstjórnin sett á laggirnar sérstakan sjóð sem hefur það markmið að auka millilandaflug um Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll. Isavia fagnar því og hlakkar til að vinna með heimamönnum að því að efla millilandaflug um þessa tvo flugvelli. Vinna þarf að markaðsmálum, bæði heima en ekki síst erlendis, svo þetta verði lífvænlegir millilandaflugvellir á næstu árum.

Með markvissu starfi og samvinnu ferðaþjónustunnar gætu flugvellirnir tveir sinnt margfalt fleiri farþegum á hverju ári. Í þessari vinnu má ekki gleyma mikilvægi flugsamgangna innanlands því þær eru grundvöllur fyrir því að flugvellirnir geti vaxið áfram.

Hagsmunir Isavia, sem rekstraraðila flugvalla, fara saman við hagsmuni ferðaþjónustunnar. Við þurfum að vinna saman að því að byggja upp góða aðstöðu, svo hægt sé að fjölga farþegum, bæði í innanlandsflugi og alþjóðaflugi. Bæði Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöllur geta tekið við miklum fjölda farþega á ári óbreyttir.

Efling innanlandsflugvalla og innanlandsflugsins almennt er því öllum í hag. Sé það vilji okkar að flug verði áfram hluti af almenningssamgöngukerfi landsins þurfum við að taka höndum saman og byggja upp til framtíðar.




Skoðun

Sjá meira


×