Hamilton byrjaði tímabilið frábærlega og vann fjórar af fyrstu fimm keppnunum. Síðan þá hefur Hamilton lent í öðru sæti í tvígang á eftir liðsfélaga sínum NicoRosberg, en í Kanada þurfti hann að hætta keppni.
Rosberg hefur verið mjög stöðugur á tímabilinu; unnið þrjár keppnir og lent fimm sinnum í öðru sæti. Hann er í efsta sæti stigakeppni ökumanna eftir átta kappakstra með 165 stig, 29 stigum á undan Hamilton.
„Ég hugsa mikið um Muhammad Ali,“ segir Hamilton í viðtali við BBC og vísar til „rope a dope“-bardagans gegn GeorgeForman árið 1974.
„Hann hélt sig við reipin og leyfði Forman að hafa yfirhöndina þar til hann ákvað að nú væri nóg komið og sneri bardaganum sér í hag. Ég vonast til að geta gert svipaða hluti. Ali veitir mér innblástur.“
Það skiptir Breta miklu máli að vinna Silverstone-kappaksturinn á heimavelli, en það tókst Hamilton árið 2008 þegar hann varð meistari með McLaren.
Rosberg vann á Silverstone í fyrra nokkuð óvænt en það kæmi fáum á óvart ef hann myndi fagna sigri á sunnudaginn. Mercedes-bílarnir eru nær ósigrandi og unnu Hamilton og Rosberg fyrstu sjö keppnir ársins áður en Felipe Massa vann afar óvæntan sigur í Kanada.
