Lífið

„Þetta er algjör fjölskylda“

Baldvin Þormóðsson skrifar
Kolbrún Eva mun rifja upp gamla takta með hljómsveitinni Myst en hljómsveitin hefur ekki komið fram í nokkur ár.
Kolbrún Eva mun rifja upp gamla takta með hljómsveitinni Myst en hljómsveitin hefur ekki komið fram í nokkur ár.
„Við erum svona að rífa okkur upp, við vorum svo dugleg einu sinni,“ segir Kolbrún Eva Viktorsdóttir, söngkona hljómsveitarinnar Myst sem kemur fram á tónleikum í kvöld klukkan 21.00 á Café Deluxe í Hafnarfirði.

„Við gáfum út diskinn Take Me with You árið 2006 sem fékk mjög góða spilun,“ segir söngkonan. „En síðan fór maður bara í að eignast fleiri börn og við erum núna að halda fyrstu tónleikana í nokkur ár,“ segir Kolbrún og hlær.

Hljómsveitin ætlar sér ekki að fara rólega af stað heldur er hún nýkomin úr hljóðveri þar sem hún tók upp nýtt lag með aðstoð Jóns Ólafssonar tónlistarmanns. „Hann er alveg ótrúlegur,“ segir Kolbrún.

„Við vorum að fá lagið í hendurnar og ætlum að herja á útvarpsstöðvarnar og athuga hvort við fáum ekki einhverja spilun.“ Meðlimir Myst eru ekki af verri endanum en ásamt Kolbrúnu eru í sveitinni maðurinn hennar, Haraldur Gunnar Ásmundsson, bróðir hennar, Sigurvin Sindri Viktorsson, frændi hennar, Gunnar Leó Pálsson, og æskuvinur Sigurvins, Hermann Albert Jónsson.

„Þetta er algjör fjölskylda,“ segir söngkonan. „Það er æðislegt að vera á tónleikaferðalagi, það geta allir gist saman hjá ættingjum og svona. Mjög þægilegt,“ segir Kolbrún og bætir því við að þrátt fyrir náin tengsl hafi aldrei komið til árekstra í hljómsveitarstarfinu.

,,Við erum svo róleg öll, síðan er ekkert hægt að ljúga að þú sért að fara að gera eitthvað ef það er æfing því það vita allir hvað þú ert að gera,“ segir söngkonan og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.