Skoðun

Opið bréf til borgarstjóra Reykjavíkur

Linda Björk Markúsardóttir skrifar
Tilgangur þessara skrifa er að vekja athygli þína á málaflokki sem virðist hafa gleymst að miklu leyti í Reykjavík: Talmeinaþjónustu.

Árið 2012 var gefin út skýrsla á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins um stöðu barna og unglinga með tal- og málþroskaraskanir. Samkvæmt henni má í hverjum árgangi skólabarna (frá 2-18 ára) gera ráð fyrir að 300 börn að lágmarki þurfi á talþjálfun að halda. 300 börn í 12 árgöngum eru alls 4.800 börn með tal-og/eða málþroskaraskanir.

Í Reykjavík eru, eins og þú veist, starfræktar sex þjónustumiðstöðvar. Má leyfa þér að giska á hvað eru margir talmeinafræðingar starfandi á þeim? Búinn að velja þér tölu? Þeir eru fjórir og starfa á tveimur þjónustumiðstöðvum (þú færð bónusstig ef þú veist á hvaða tveimur án þess að fletta því upp). Til samanburðar má ég til með að benda á að á þessum sömu sex þjónustumiðstöðvum starfa 32 sálfræðingar og 59 félagsráðgjafar.

Þegar þú sóttist eftir kjöri sem borgarstjóri sagðir þú eftirfarandi: Komandi kosningar munu því snúast um það hvort borgarbúar leggi traust sitt á hugmyndafræðina sem leiddi okkur í hrunið eða vilji skýran valkost jafnaðarstefnunnar með áherslu á atvinnuuppbyggingu, lýðræðisumbætur, velferð og börn.

Nú átt þú kost á að beita þér fyrir málaflokki sem slær tvær af kosningaloforðsflugunum í einu höggi, það er bæði atvinnuuppbyggingu og börn. Með því að hafa, að lágmarki, einn talmeinafræðing á hverri þjónustumiðstöð stuðlar þú að atvinnuuppbyggingu og leggur jafnframt börnum með tal- og málþroskaraskanir lið. Að vísu aðeins brotabroti af þeim 4.800 börnum sem þurfa á þjónustunni að halda en, hei, það verður að byrja einhvers staðar.




Skoðun

Skoðun

Vel gert!

Halla Signý Kristjánsdóttir skrifar

Sjá meira


×