Skoðun

Pósturinn Páll í íslenskum raunveruleika

Lárus M. K. Ólafsson skrifar
Það kannast einhverjir við barnaþættina um póstinn Pál sem brosleitur annaðist störf án skaðlegra inngripa frá opinberum aðilum. Má segja að einfaldleikinn sem þar birtist sé ágætis einföldun á póstmarkaði þar sem á fyrirtækjum hvíla ströng skilyrði neytendum til hagsbóta. Fyrirtækin eru einnig háð því að starfsemi opinberra aðila sé í fullu samræmi við góða og vandaða stjórnsýslu þannig að markaðurinn gangi eins og vel smurð vél – ekki ólíkt því hjá áðurnefndum Páli.

En hvernig er svo stjórnsýsla póstmála? Í stuttu máli er yfirstjórn í höndum innanríkisráðherra en Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur umsjón með framkvæmd málaflokksins. Þá starfar sérstök úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála en heimilt er að kæra ákvarðanir PFS til hennar. Ætla mætti að markaðurinn byggi við ábyrga stjórnsýslu og afskipti stjórnvalda í samræmi við lögbundin hlutverk þeirra. En því miður er þann veruleika eingöngu að finna í áðurnefndum barnaþáttum.

SVÞ hafa gagnrýnt stjórnsýslu póstmála hér á landi. Gagnrýnin hefur meðal annars verið að svo virðist sem PFS hafi í störfum sínum tekið sér hlutverk umfram lögbundin verkefni stofnunarinnar. Hefur stofnunin meðal annars tekið til umfjöllunar eigin tillögur að gjaldskrám fyrirtækja og haft eigin hagsmuni að leiðarljósi frekar en hagsmuni fyrirtækja eða almennings. Á kjarnyrtri íslenskri tungu kallast slíkt brot gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Því var áhugavert að sjá að umboðsmaður Alþingis sendi nýlega á úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála og PFS ábendingar varðandi starfsemi þessara aðila þar sem gagnrýnt er að PFS hafi ekki gætt að vönduðum stjórnsýsluháttum í tilteknu máli.

Gerði umboðsmaður einnig athugasemdir við að úrskurðarnefndin hefði staðfest ákvörðun PFS þrátt fyrir að stofnunin hefði farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt og þannig brugðist því hlutverki sínu að hafa aðhald á stofnuninni. Einnig telur umboðsmaður vafa leika á að tilteknir nefndarmenn uppfylli lögbundin hæfisskilyrði sem til þessara aðila eru gerð. Ef satt reynist er komin upp verulega alvarleg staða ef litið er til þeirra úrskurða sem nefndin hefur þegar kveðið upp.

En hver eru þá starfsskilyrði póstfyrirtækja? Í fyrsta lagi er yfirstjórn málaflokksins í höndum ráðuneytis sem hefur ekki brugðist að fullu við meintum meinbugum. Í öðru lagi er eftirlit í höndum stofnunar sem umboðsmaður Alþingis telur hafa farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt. Í þriðja lagi er starfsemi úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í uppnámi, enda vafamál hvort einstakir nefndarmenn uppfylla tiltekin hæfisskilyrði. Í þessu umhverfi er fyrirtækjum í samkeppni ætlað að starfa.

Að gefnu tilefni skal hér áréttað eitt af markmiðum ríkisstjórnarinnar, sem er að beita sér fyrir endurskoðun regluverks atvinnulífsins með einföldun og aukna skilvirkni þess að leiðarljósi. SVÞ ítreka mikilvægi þess að markmiði þessu verði fylgt eftir.

SVÞ telja mikilvægt að stjórnvöld tryggi að starfsumhverfi póstfyrirtækja sé í samræmi við hagsmuni fyrirtækja og almennings og að eftirlitsaðilar starfi ávallt í samræmi við vandaða stjórnsýslu. Stjórnvöld verða því að bretta upp ermarnar og taka rösklega til hendinni í þessum málum og vinna á þeim meinbugum sem uppi eru. Ekki eingöngu til að tryggja starfsskilyrði póstfyrirtækja heldur einnig til að lágmarka það tjón sem þegar hefur orðið á starfsemi þessara aðila.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×