Skoðun

Grundvallarniðurstöður Rannsóknarnefndar Alþingis um fall sparisjóðanna eru rangar

Árni H. Kristjánsson skrifar
Eins og kunnugt er tók Rannsóknarnefnd Alþingis um fall sparisjóðanna ófrjálsri hendi texta úr bók minni Hugsjónir, fjármál og pólitík. Saga Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í sjötíu og sjö ár. Vegna þessa sökkti ég mér niður í skýrsluna og rak þá augun í að grundvallarniðurstöður nefndarinnar eru rangar. Sú niðurstaða byggir meðal annars á ítarlegri rannsóknarvinnu minni við ritun bókar minnar sem Sögufélag gaf út fyrir síðustu jól.

Í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar fer tvennum sögum af heildarkostnaði sem þegar hafi fallið til vegna erfiðleika og falls þeirra. Í bindi 1, bls. 31, segir að kostnaðurinn sé tæplega 35 milljarðar króna. Í sama bindi á bls. 44 segir að kostnaðurinn sé rúmlega 33 milljarðar króna. Þetta misræmi í einni af grundvallarniðurstöðum skýrslunnar er sérkennilegt að sjá og ekki til þess fallið að vekja traust á skýrslunni.

Þetta eru þó smámunir miðað við þá niðurstöðu að fall sparisjóðanna muni kosta skattgreiðendur allt að 300 milljarða króna – tala sem slegið hefur verið upp í fjölmiðlum eftir að skýrslan var kynnt. Til grundvallar þessari niðurstöðu nefndarinnar er fyrrnefndur kostnaður sem þegar hefur fallið til og 215 milljarða króna krafa Seðlabanka Íslands í þrotabú Sparisjóðabankans (SPB/Icebank; hér eftir SPB), eins og greint er frá í bindi 1, bls. 44.

Notaður sem milliliður

Eitt lykilatriði verður að vera á hreinu: Kröfugerð Seðlabankans upp á 215 milljarða króna er sparisjóðunum með öllu óviðkomandi og niðurstaða rannsóknarnefndarinnar því röng. Seðlabankinn veitti lánin að formi til SPB sem endurlánaði þau til viðskiptabankanna þriggja í aðdraganda hrunsins. Seðlabankanum var ekki heimilt að lána bönkunum beint samkvæmt lögum og eigin reglum nema sem „neyðarlán“. Þegar lánin voru veitt voru aðeins fáir sparisjóðir í hópi eigenda SPB sem hafði þá reyndar skipt um nafn og hét Icebank. Aðrir aðilar áttu þá verulegan hlut í bankanum eða 30–40%.

Staðreyndir málsins voru þáverandi stjórnendum Seðlabankans að sjálfsögðu ljósar enda var eigið fé SPB ekki nema lítið brot af lánsfjárhæðunum. Öllum hlutaðeigendum var auðvitað fullkunnugt um að lánin voru ekki til nota fyrir SPB og að sparisjóðirnir fengu enga hlutdeild í þeim. SPB var einfaldlega notaður sem milliliður í fálmkenndum tilraunum Seðlabankans til að bjarga viðskiptabönkunum þremur.

„Gjaldþrot“ Seðlabankans

Fall sparisjóðanna hefur því ekkert með uppgjör Seðlabankans og slitastjórnar SPB að gera. Það er furðulegt, að rannsóknarnefnd á vegum Alþingis, sem hafði mjög rúman tíma og gríðarlegt fjármagn til ráðstöfunar, skuli komast að svo rangri niðurstöðu. Málið allt gefur hins vegar tilefni til að spyrja hvers vegna hefur aðkoma Seðlabanka Íslands að þessu máli og „gjaldþrot“ hans ekki verið rannsakað?

Kostnaður sem „þegar hefur fallið til“ vegna erfiðleika og falls sparisjóðanna, 33 eða 35 milljarðar króna eftir því hvar er stungið niður í skýrslunni, er að langmestu leyti tilkominn vegna sparisjóðsins í Keflavík og umdeildra aðgerða ríkisvaldsins til að halda honum á lífi. Þetta hefði auðvitað átt að koma fram með skýrum hætti í niðurstöðukafla skýrslunnar.

Við þetta má bæta sem dæmi um afleit vinnubrögð að talan 215 milljarðar króna, sem nefndin telur svo ranglega til tjóns vegna sparisjóðanna, er einnig röng. Til frádráttar hefði nefnilega átt að telja lögfræðikostnað, dráttarvexti, andvirði veða, endurgjald samkvæmt kröfulýsingu og andvirði eigna, samtals hvorki meira né minna en um 125 milljarðar króna.

Það er mjög bagalegt að grundvallarniðurstöður nefndarinnar skuli vera svo rangar sem raun ber vitni. Það er því hægt að fullyrða að þessi kostnaðarsama „rannsóknarvinna“ nefndarinnar dragi upp rammskakka mynd af stöðu sparisjóða í kjölfar hrunsins.




Skoðun

Sjá meira


×