Skoðun

Gulrætur eða keyri við innleiðingu á samfélagsábyrgð

Lára Jóhannsdóttir skrifar
Nýlega kom út á vegum KPMG, Global Reporting Initiative (GRI), Umhverfisáætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) og Miðstöðvar um stjórnunarhætti í Afríku skýrslan Carrots and sticks. Skýrslan tók til stöðu mála í 45 þjóðlöndum og fjallaði um samfélagsábyrgð út frá þeim forsendum að fyrirtæki axli sjálfviljug ábyrgð á áhrifum sínum á samfélag og umhverfi, eða að þau séu þvinguð til aðgerða.

SamtakamátturFram kemur að sjálfbærnivandamál, það er efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg vandamál, krefjist samtakamáttar og að sjálfbærniskýrslur stuðli að árangri þar sem fyrirtæki setji markmið, mæli árangur og stjórni breytingum. Skýrslurnar þjóni þeim tilgangi að miðla upplýsingum, jákvæðum og neikvæðum, sem nýtast til umbóta og til að upplýsa þá sem verða fyrir áhrifum af rekstrinum. Sjálfbærniskýrslur stuðla að samfélögum sem sameina langtíma arðsemi, félagslegt réttlæti og umhverfisvernd.

Fram kemur að stefna stjórnvalda, reglugerðir og aðgerðir einkageirans flýti útgáfu sjálfbærniskýrslna. Í þeim 45 löndum sem um ræðir eru 180 reglur í gildi, þar af gera 72 prósent lagalegar kröfur til fyrirtækja um útgáfu sjálfbærniskýrslna, en í 28% tilvika er upplýsingaskyldan valkvæð. Megináhersla hefur verið á skýrslugjöf opinberra fyrirtækja og stærri fyrirtækja, en vaxandi fjöldi lítilla og meðalstórra fyrirtækja gefur út sjálfbærniskýrslur af fúsum og frjálsum vilja.

Staða málaÍ skýrslunni er gerð grein fyrir stöðu mála hérlendis um skýrslugerð fyrirtækja, en stjórnvöld gera lagalegar kröfur til fyrirtækja á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, nánar útfært í reglugerð nr. 851/2002 um grænt bókhald. Atvinnustarfsemi sem háð er starfsleyfi, sem sagt orkuiðnaði, jarðefna- og efnaiðnaði og úrgangsstarfsemi, ber að færa grænt bókhald. Þá er vísað til skýrslu Alþingis um grænt hagkerfi. Þar segir að allar stofnanir ráðuneyta og öll ríkisfyrirtæki eigi að birta ársskýrslur til samræmis við GRI-leiðbeiningar, en samkvæmt græna hagkerfinu ættu 80 prósent ráðuneyta, stofnana og ríkisfyrirtækja að skila GRI-skýrslum fyrir árið 2014.

EftirbátarTakmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um efndir hjá hinu opinbera, en eftir því sem næst verður komist þá er ÁTVR eina fyrirtækið sem gefið hefur út skýrslu miðað við GRI-leiðbeiningar. Þess utan útbjó Landsbankinn GRI-skýrslu fyrir árið 2012. Miðað við þróun mála í nágrannalöndunum þá eru íslensk fyrirtæki, jafnt opinber fyrirtæki og einkafyrirtæki, eftirbátar á þessu sviði. Er ekki kominn tími til að stjórnvöld og atvinnulífið opni augun fyrir þessari þróun, því að aðgerðarleysi á þessu sviði getur skaðað samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja til lengri tíma litið?

Lesendur Vísis geta sent inn greinar á greinar@visir.is. Greinunum þarf að fylgja mynd af höfundi.




Skoðun

Sjá meira


×