Skoðun

Verðtryggingarstjórn Sigmundar Davíðs

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar
„Eftir kosningar tekur við framsóknarstjórn eða verðtryggingarstjórn.“ Þetta var boðskapur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þann 22. apríl 2013. Í kosningaáróðri Framsóknarflokksins var hamrað á því að verðtryggingin yrði afnumin.

Nú, einu ári síðar, er ljóst að framsóknarstjórn Sigmundar Davíðs er verðtryggingarstjórn, enda hafa engin þingmál verið lögð fram um afnám verðtryggingar. Og það sem meira er, verðtryggingin hefur fest sig í sessi á íslenskum lánamarkaði. Frá hruni og fram að framsóknarstjórn Sigmundar minnkaði vægi verðtryggðra lána sem hlutfall af nýjum lánum, en nú hefur þetta snúist við.

Verðtryggingin er að festa sig í sessi á nýjan leik. Ekki er að sjá að þessi þróun valdi Framsóknarflokknum áhyggjum.

Sigmundur Davíð skipaði vissulega nefnd um málið. Niðurstaða nefndarinnar var í grunninn sú að kosningaloforð Framsóknarflokksins væru þjóðhættuleg, ógnun við fjármálastöðugleika og nánast óframkvæmanleg. Það eina sem nefndin taldi sig geta lagt til var að banna verðtryggð jafngreiðslulán til 40 ára sem nýtast helst tekjulágum og ungu fólki. Niðurstaðan er í samræmi við skilningsleysi ríkisstjórnarinnar á kjörum þeirra tekjulægri, en verður að teljast lélegt fyrsta útspil í umræðu um afnám verðtryggingar.

Skuldalækkunarfrumvörp Sigmundar Davíðs hafa almennt valdið miklum vonbrigðum, ekki síst hjá fyrrverandi kjósendum Framsóknarflokksins. Einungis 40% kjósenda flokksins eru ánægð með árangurinn. Það vekur athygli að engin tilraun er gerð til að tengja saman skuldalækkun og minna vægi verðtryggingar. Aðgerðirnar geta einnig valdið aukinni verðbólgu og hækkandi húsnæðisverði. Það eru vondar fréttir fyrir verst stöddu skuldarana, sem litla sem enga lækkun fá, og ungt fólk sem þarf að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Leiga er alla jafna verðtryggð, en á þeim vanda hefur Sigmundur engan áhuga.

Sigmundur Davíð taldi fyrir ári síðan að lítið mál væri að afnema verðtryggingu. Nú er hann í forsvari fyrir verðtryggingarstjórn. Stjórn sem ætlar í tugmilljarða aðgerðir sem gagnast ekki heimilum í greiðsluvanda, leigjendum og skuldurum námslána, þvert á móti munu byrðar þeirra líklega aukast.




Skoðun

Sjá meira


×