Vissi ekki hvað osteópati var

Snæfell tryggði sér deildarmeistaratitilinn með þó nokkrum yfirburðum í vetur en Brown var þar í mjög stóru hlutverki. Því var jafnvel talið að fjarvera hennar, auk meiðsla Hugrúnar Evu Valdimarsdóttur, myndi kosta liðið sæti í lokaúrslitunum.
En svo birtist nafn Brown á leikskýrslu fyrir þriðja leik liðanna í fyrrakvöld eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Brown spilaði í rúmar 20 mínútur og Snæfell vann leikinn. Að honum loknum sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari liðsins, að hann hefði sent Brown til Keflavíkur þar sem hún fór í meðferð hjá Pétri Péturssyni, osteópata (sérfræðing í hrygg- og liðskekkjumeðferð) í Keflavík.
Brown segir í samtali við Fréttablaðið að það hefði komið mörgum á óvart að meðferðin hjá Pétri hefði skilað svo góðum árangri.
„Ekki síst sjálfri mér,“ segir hún. „Í stuttu máli þá fiktaði hann aðeins í löppinni á mér. Það var sársaukafullt en algjörlega þess virði.“
Hún segist hafa eðlilega verið aum eftir leikinn í gær. „Það var við því að búast en þetta er þó ekkert of slæmt,“ segir hún og bætir við að liðbandið sjálft sé ekki slitið – aðeins tognað.
„Annars fann hann eitthvað í mjöðminni sem hann gat unnið með. Hann talaði um að það hefði mögulega orsakað meiðslin,“ segir Brown sem hafði enga reynslu af því að leita óhefðbundinna lækninga.
„Ég hafði aldrei heyrt um osteópata áður en var til í að prófa allt. Ég hitti hann svo aftur í dag [í gær] og er klár í næsta leik.“
Hún segist ekki hafa óttast að gera sér óleik með því að fara of snemma aftur af stað eftir meiðslin. „Alls ekki. Ég sagði bara þjálfaranum að byrja með mig á bekknum og að ég myndi svo koma inn þegar þess þyrfti. Ég var svo ekkert að hugsa um meiðslin þegar ég kom inn á – ég einbeitti mér bara að því að spila.“
Tengdar fréttir

Lykilmenn meiddir hjá Snæfelli
Snæfell vann sannfærandi sigur á Val í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Dominos-deildar kvenna. Leikurinn varð þó dýr fyrir Snæfellsliðið.

Ingi Þór fann kraftaverkið í Keflavík
"Ég komst í samband við góðan mann í Keflavík og hann kom henni í gang," sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, um ótrúlega endurkomu Chynnu Brown í sigri liðsins á Val í kvöld.

Tímabilið líklega búið hjá Brown
Deildarmeistarar Snæfells verða líklega án hinnar bandarísku Chynnu Brown, sem meiddist strax í fyrsta leik úrslitakeppninnar, þegar liðið mætir Val í þriðja leik undanúrslitarimmu liðanna klukkan 19.15 í kvöld.

Chynna Brown ekki með Snæfelli í kvöld
Chynna Unique Brown og Hugrún Eva Valdimarsdóttir verða ekki með Snæfelli í kvöld þegar liðið mætir Val í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Dominos-deildar kvenna í körfubolta. Þetta kemur fram á heimasíðu Snæfells.

Kraftaverkakonan Brown spilaði og Snæfell vann
Chynna Brown var óvænt í liði Snæfells sem er aftur komið í foyrstu í undanúrslitarimmu liðsins gegn Val í úrslitakeppni Domino's-deildar kvenna. Snæfell vann leik liðanna í Stykkishólmi í kvöld, 81-67.