Skoðun

Krónuþráhyggjan

Martha Árnadóttir skrifar
Um fátt er meira rætt á Íslandi en krónur, fjölda þeirra, hverjir eiga þær og hverjir engar. Hversu margar krónur eru nógu margar krónur og hvert á að sækja þær krónur sem upp á vantar, hver á að dreifa þeim, láta þá hafa sem engar eiga – og af hverju eiga þeir engar og aðrir svona margar – og svo auðvitað hvaða krónur eru vel og illa fengnar. Þetta er rætt alla daga í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum, í kommentakerfum, bloggum og kaffistofum.

Huglæg fátækt

Aftur á móti fer mjög lítið fyrir almennri umræðu um stöðu annarra verðmæta sem kalla mætti „huglæg verðmæti“. Þá á ég ekki við andleg eða einhvers konar „spiritual“ verðmæti heldur mun frekar verðmæti sem tengjast getu okkar til að taka ákvarðanir frá degi til dags, hinar fjölmörgu litlu ákvarðanir sem marka kúrsinn í lífi okkar annaðhvort smátt og smátt, svo smátt að við tökum varla eftir því að við stefnum hægt og örugglega að feigðarósi, og svo hinar stóru sem skipta sköpum á örstuttum tíma.

En – hvað er svo sem hægt að ræða þetta, engin vísitala, enginn til að krefja úrlausna, ekki einu sinni Seðlabanki til að skamma eða stjórnmálamenn til að gera lítið úr.

Ímyndunarafl og sannfæring

Í bók sinni Íkarusblekkingin hvetur Mr. Godin okkur til að vera listamenn á okkar eigin forsendum, hætta að máta okkur í starfsheiti, stöður, merkimiða eða aðra ramma sem þegar hafa verið meitlaðir af samfélaginu. Að sjálfsögðu er það ekki einfalt því flestum, þó ekki öllum, finnst erfitt að máta sig í eitthvað sem er ekki til, auðvitað, því það er ekki hægt nema með einbeittu ímyndunarafli og sterkri tilfinningu, sem er einmitt eiginleiki svo margra sem hafa skilið svo mikið eftir sig.

Vertu listamaður

Að feta ótroðna slóð krefst heilmikils kjarks og samkvæmt skilgreiningu Mr. Godin verður „listaverk“ að uppfylla þrennt; að það það breyti heiminum örlítið, að það sé gert af heilum hug, sannfæringu og örlæti og að það felist í því áhætta að framkvæma það.

Form og rammar hvers tíma eru svo takmarkandi og koma iðulega í veg fyrir fullan blóma hjá alltof mörgum einstaklingum. Vertu listamaður í stað þess að vera kokkur, forstjóri, framsóknarmaður, kona og leyfðu lífinu að koma þér á óvart!




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×