Skoðun

Kæri biskup

Ingólfur Harri Hermannsson skrifar
Ég heyrði í þér í fréttunum á sjálfan jóladaginn og það er ekki laust við að jólahangikjötið hafi hrokkið öfugt ofan í mig þegar ég heyrði orð þín.

Nú veltir þú því sjálfsagt fyrir þér hvað olli því að mér varð svona við, því í fréttinni var ýmislegt sagt á stuttum tíma.

Ég get sagt þér það að ekki var það betlið. Ég er fyrir löngu orðinn vanur því að kirkjan heimti meiri peninga úr sameiginlegum sjóðum ríkisins.

Þó svo að prestar fái betur borgað en læknar og þó svo að sóknargjöld hafi hækkað um 42% umfram verðlag síðustu 20 árin fyrir hrun þá er Þjóðkirkjan eina ríkisstofnunin sem gerir kröfu um að fá niðurskurð eftirhrunsáranna endurgreiddan og fær meira að segja ríkisstjórnina til að samþykkja það á meðan enn er þrengt að sjúklingum og bótaþegum. Það kemur mér því ekkert á óvart að þú látir í þér heyra þegar tafir verða á efndum ríkisstjórnarinnar.

Nei, það sem mér brá svona við er þegar þú sagðir að það væri hluti af því að vera Íslendingur að fara í kirkju fyrir jólin. Nú er það svo að einungis þriðjungur íbúa landsins sótti kirkju um eða fyrir jólin í fyrra.

Lentir í minnihluta

Ég er auðvitað alvanur því að þú, og aðrir fulltrúar kirkjunnar, telji trúvillinga eins og mig ekki vera hluta af íslensku þjóðinni en þarna slóstu sömu blautu tuskunni framan í rúmlega 200 þúsund manns sem flestir stóðu í þeirri trú að þeir væru raunverulegir Íslendingar og margir jafnvel að þeir væru kristnir Íslendingar. Nú virðist sem sannir Íslendingar séu lentir í minnihluta í eigin landi á meðan restin af íbúum landsins stendur uppi ríkisfangslaus.

Mér finnst því að þú skuldir þeim skýr svör við eftirfarandi spurningum:

Ef þeir eru ekki Íslendingar, hvað eru þeir þá?

Eiga þeir að flytja af landi brott eða fá þeir að dvelja hér áfram (svo lengi sem þeir senda börnin sín í kirkjuheimsóknir fyrir jólin svo börnin geti í það minnsta orðið alvöru Íslendingar)?

Eiga þessir útlendingar í eigin landi að halda áfram að borga launin þín?

Kær kveðja.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×