Viðskipti innlent

Spá því að verðbólgan fari undir þolmörk

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þeir Már Guðmundsson og Arnór Sighvatsson þurfa að gera grein fyrir afstöðu Seðlabankans ef verðbólgan fer undir eitt prósent.
Þeir Már Guðmundsson og Arnór Sighvatsson þurfa að gera grein fyrir afstöðu Seðlabankans ef verðbólgan fer undir eitt prósent. fréttablaðið/ernir
Greiningardeildir allra þriggja viðskiptabankanna og IFS greiningar telja að tólf mánaða verðbólga fari undir neðri þolmörk Seðlabankans í desember. Hagstofa Íslands birtir verðbólgutölur 19. desember.

Gangi þetta eftir mun Seðlabankinn þurfa að birta greinargerð um ástæður fyrir lítilli verðbólgu og úrbætur í þeim efnum. Verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5 prósent og eru þolmörkin 1,5 prósent. Samkvæmt mælingu Hagstofunnar var verðbólgan eitt prósent í nóvember.

Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,3 prósent í desembermánuði frá mánuðinum á undan. Tólf mánaða verðbólga hjaðni úr 1,0 prósenti í 0,8 prósent.

IFS greining, greiningardeild Arion banka og hagfræðideild Landsbankans spá því hins vegar allar að neysluverðsvísitalan í desember hækki um 0,2 prósent og tólf mánaða verðbólga fari niður í 0,7 prósent. Samkvæmt þeirri spá yrði ársverðbólgan sú lægsta í um tvo áratugi eða síðan í desember árið 1994.

Bráðabirgðaspá hagfræðideildar Landsbankans gerir ráð fyrir 0,3 prósenta lækkun neysluverðsvísitölu í janúar, 0,2 prósenta hækkun febrúar og 0,2 prósenta hækkun í mars á næsta ári.

Gangi spáin eftir verður tólf mánaða verðbólgan 0,6 prósent í mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×