Skoðun

Ekkert umburðarlyndi gagnvart ofbeldi

Sigríður Halldórsdóttir skrifar
Ofbeldi er smánarblettur á hverju samfélagi og mikilvægt er að vinna markvisst að útrýmingu þess. Ekkert umburðarlyndi gagnvart ofbeldi var yfirskrift málþings sem Jafnréttisstofa, norræna ráðherranefndin, innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið stóðu nýlega fyrir. Þar var kynnt viðamikil rannsókn sem gerð var á vegum Mannréttindastofnunar Evrópusambandsins á ofbeldi gegn konum í 28 Evrópulöndum (Violence against women: An EU-wide survey. Results at a glance).

Rannsóknarniðurstöðurnar byggjast á persónulegum viðtölum við 42.000 konur í Evrópu og er þetta stærsta rannsókn sem gerð hefur verið á reynslu kvenna af ofbeldi í Evrópu og reyndar á heimsvísu. Konurnar voru á aldrinum 18-74 ára og voru valdar af handahófi. Rannsóknin gefur til kynna að ofbeldi gegn konum sé algengt en falið mannréttindabrot í Evrópu. Mannréttindastofnun Evrópusambandsins hvetur allar þjóðir í Evrópu til að skera upp herör gegn ofbeldi gegn konum og að gera allt sem hægt er til að hindra það.

Í rannsókninni kom meðal annars fram að barnshafandi konur eru sérstakur áhættuhópur en 42% kvenna urðu fyrir ofbeldi meðan þær áttu von á barni. Einni af hverjum 20 konum hafði verið nauðgað frá 15 ára aldri. Um þriðjungur kvenna hafði orðið fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi frá 15 ára aldri. Þá höfðu 27% kvenna þurft að þola einhvers konar líkamlegt ofbeldi af hendi fullorðins einstaklings fyrir 15 ára aldur og 12% kvenna höfðu þurft að þola kynferðislegt ofbeldi í bernsku. Í 97% tilfella kynferðislegs ofbeldis í bernsku var ofbeldismaðurinn karlmaður.

Í mestri hættu

Rannsóknin sýnir að það eru ungar konur sem eru í mestri hættu á að verða fyrir ofbeldi. Því þarf að beina athyglinni alveg sérstaklega að þeim þegar rætt er um aðferðir til að hindra ofbeldi gegn konum. Í Istanbúlsamningi Evrópuráðsins eru settir fram staðlar um hvernig aðstoða skuli þolendur kynbundins ofbeldis. Þessa staðla þarf að kynna og innleiða.

Við erum hönnuð til að vera heilbrigð en hver manneskja er ein heild, líkami og sál. Það sem brýtur á sálinni brýtur á líkamanum. Í fáu er þessi sannleikur jafn skýr og í áhrifum ofbeldis á líkamann, hvort sem ofbeldið sjálft er andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt. Stórar rannsóknir sýna að þau sem verða fyrir ofbeldi eru í meiri hættu á að fá ýmsa alvarlega sjúkdóma. Ræða þarf því ofbeldi sem lýðheilsuvandamál. Mikilvægt er að auka þekkingu á ofbeldi og áhrifum þess, taka á vandanum með samstilltu átaki allra aðila og vinna markvisst að því að útrýma því.




Skoðun

Sjá meira


×