Skoðun

Iðjuþjálfun barna

Elsa Sigríður Þorvaldsdóttir skrifar
Undirrituð hefur um árabil verið starfandi barnaiðjuþjálfi hjá Æfingarstöð Styrktarfélagsins. Í iðjuþjálfun koma börn frá 2–18 ára. Flest eru á aldrinum 4–11 ára þegar þau koma í þjálfun. Stór hluti þessara barna á við vanda að etja með fín- og grófhreyfingar. Mörg þeirra eru með ofvirknigreiningar og/eða athyglisbrest. Fleiri strákar en stelpur koma í þjálfun sem segir ekki alla söguna, því margar stelpur eiga við vanda að etja en þær gleymast stundum því minna ber á þeim en strákunum. Það að eiga í vanda með fín- og grófhreyfingar kemur oft fram í námserfiðleikum sem gjarnan leiðir til lítils sjálfstrausts sem dregur úr jákvæðri sjálfsmynd sem hefur síðan áhrif á hegðun. Það getur síðan leitt til þess að börn lenda í félagslegum erfiðleikum, þ.e.a.s. að þau eigi erfitt með að eignast vini og þrífast illa í hópnum. Iðjuþjálfar vinna því bæði með börn í einstaklingstímum og í hópþjálfun og fer síðari hópurinn vaxandi.

Í ljósi niðurstaðna úr PISA-könnuninni er afar ánægjulegt að börnum líði betur í skóla en áður en dapurt er að drengir geti ekki lesið sér til gagns eftir grunnskólanám. Hér þarf að bregðast við. Iðjuþjálfar leggja ýmis próf fyrir börn þegar þau byrja í þjálfun. Eitt þessara prófa metur skynjun barna. Sum þessara barna eru með skynúrvinnsluvanda sem getur þýtt að þau þola illa hávaða, snertingu, eru lofthrædd og fleira. Þessir þættir geta gert það að verkum að börnin eiga erfitt með að einbeita sér sem kemur niður á námsárangri. Þegar iðjuþjálfar hafa prófað börnin koma þeir með ráðleggingar til foreldra, leikskólafólks og kennara.

Oftar en ekki þarf að draga úr áreitum í kringum barnið en auka þau á öðrum sviðum. Mörg af þeim börnum sem iðjuþjálfar vinna með þola illa mjög opin rými, þau vinna best þar sem minnst áreiti er, þ.e.a.s. lítill umgangur og rólegheit. Stundum hjálpar þeim að einbeita sér að hafa rólega tónlist í eyrunum eða hafa heyrnartól til að útiloka umhverfishljóð. Þá hjálpar mörgum börnum að hafa sjónrænt skipulag, þannig að þau hafi fyrir framan sig myndræna töflu um hvað eigi að fara að vinna hverju sinni. Það auðveldar þeim að hafa yfirlit yfir daginn og sjá hvað þau eiga að gera næst. Þá er gott að hafa ekkert á borðinu nema það sem þau þurfa að vinna með hverju sinni. Betra er að hafa verkefnin styttri en lengri. Börnin upplifa að þau geti lokið verkefninu sem hefur góð áhrif á sjálfstraustið og trú þeirra á eigin getu.

Auðvelt að innleiða

Alla þessa þætti er auðvelt að innleiða heima og í skólanum. Mæta börnunum þar sem þau eru og auka við þau hægt og rólega. Tökum sem dæmi barn sem á erfitt með að púsla. Gott er að finna skemmtilegt púsl sem er ekki of erfitt og kenna barninu púslið, með því að púsla það nokkrum sinnum, alveg þangað til barnið kann það. Það eykur sjálfstraust barnsins og gerir það að verkum að barnið sækir í að púsla annað púsl. Mörg börn eiga erfitt með að sitja lengi kyrr í skólastofu. Fínt er að taka regluleg hreyfihlé, þar sem barnið fær að standa upp og teygja sig eða gefa barninu hlutverk í tímanum, ná í eitthvað, útbýta blöðum og fleira. Síðan sest barnið aftur og vinnur í stutta lotu. Gott ráð er að hætta áður en barnið er orðið þreytt og pirrað.

Þegar barn kemur í iðjuþjálfun gerast ekki kraftaverk, iðjuþjálfar breyta ekki barni en þeir geta vakið áhuga barnsins á einu og öðru sem gerir það að verkum að barnið nær auknum tökum á ólíkum viðfangsefnum eins og að teikna, klippa, púsla. Til að auka enn frekar gæði þjálfunar er samvinna milli foreldra, barna, leikskólafólks og kennara nauðsynleg.

Foreldrar gegna lykilhlutverki í lífi barna sinna, þeir eru oftar en ekki þeirra helstu fyrirmyndir. Foreldrar verða að sinna heimavinnu barna sinna. Eiga gæðastundir með börnum, lesa, lita með þeim, fara út að ganga, hjóla, fara í sund, fara á skíði og skauta …og sleppa símanum á meðan. Þá tel ég það vera mikinn feng fyrir leikskóla, skóla og bæjarfélög að ráða iðjuþjálfa til sín. Þá vinnur iðjuþjálfinn með börnin í sínu umhverfi og er í náinni samvinnu við foreldra, kennara og leikskólafólk.

Höfum í huga að það þarf heilt þorp til að koma barni til manns. Stöndum saman að velferð barna þessa lands.




Skoðun

Sjá meira


×