Skoðun

Ásýnd landsins

Úrsúla Jünemann skrifar
Helsti vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi er ferðaþjónustan. Hún er farin að skila meiru inn í þjóðarbúið en útgerðin og stóriðjan. Ferðamenn koma flestir hingað til að skoða og upplifa. En það sem þeir sækjast eftir eru ekki uppistöðulón og moldrok sem því fylgir þegar vatnsstaðan er lág í lónunum. Þeir sem vilja sjá svæði sem eru lítt snortin eru ekki heillaðir af því að sjá sundurskorið land og rafmagnslínur úti um allt. Flestum ferðamönnum finnst óspennandi að bruna eftir hraðbrautum þvert yfir landið, heldur vilja þeir upplifa ævintýri.

Því miður eru stjórnarflokkarnir D og B ennþá fastir í einhverjum gamaldags virkjunar- og stóriðjudraumum. Þar mega náttúruverndarsjónarmiðin sín lítils. Umhverfisráðuneytið er einungis til að nafninu til og ráðherrann sem á að sinna þessum málum vill helst leggja það niður þannig að stóriðjubröltið og hernaður gegn landinu geti haldið ótruflaður áfram. Sigurður Ingi var til dæmis ekki lengi að breyta mörkunum á friðlandinu í Þjórsárverum þannig að hægt væri að fara þar inn með framkvæmdir með „nýtingu á auðlindum“ í huga. Hann var ekki lengi að skera verulega niður framlag til Umhverfisstofnunar. Með vaxandi ferðamannastraumi ættu menn að halda að fé til landvörslu yrði aukið verulega. Ó, nei! Landvörðunum var fækkað í „hagræðingarskyni“.

Nýjasta útspil atvinnumálanefndarinnar undir forystu Jóns Gunnarsonar eru áformin um að færa 7 virkjunarsvæði úr biðflokki í nýtingarflokk, þvert gegn þeirri sátt sem ríkti um rammaáætlunina á síðasta kjörtímabili. Menn vilja leyfi til þess að skemma ásýnd landsins meira með því að fá aukna orku fyrir: Fyrir hvað eða hvern eiginlega? Ragnheiður Elín iðnaðarráherra hefur lýst því yfir að henni þyki óþolandi hve lengi þurfi að bíða eftir leyfi til að byggja fleiri virkjanir. Kröfur um nýtt umhverfismat séu óþarfar. Fara eigi sem fyrst af stað. Ekki bíða eftir áliti fræðimanna, skjóta fyrst en spyrja svo!

Svo er hugmyndin um upphækkaðan veg yfir Sprengisand með rafmagnslínum auðvitað afleit. Svona lagað stangast á við Ísland sem ferðamannaland. Hvar geta menn fundið ósnortin hálendissvæði ennþá ef svona verður framhaldið?

Almannaréttur

Skoðum svo „náttúrupassa“ ferðamálaráðherrans sem er einnig iðnaðarráðherra. Algjörlega vanhugsað frumvarp af henni Ragnheiði Elínu. Allir sem ferðast um landið – einnig landsmenn – eiga þá að taka upp budduna til að skoða svæði í ríkiseign. Það þýðir að á svæðum í einkaeign gætu menn rukkað að auki – eins og hefur verið reynt og gert nú þegar. Ef ég dreg upp svörtustu mynd þá sé ég fyrir mér girðingar, skúra og rukkara úti um allar koppagrundir. Hvernig yrði ásýnd landsins þá? Ósvarað er einnig í hvaða vasa náttúrupassagjöldin munu fara. Munu þau skila sér þangað sem þeim er ætlað? Og í lokin: Hefur ráðherra kynnt sér lög um almannarétt sem kveða á um að landsmönnum sé frjálst að fara um landið sitt? Við sem búum í þessu landi hljótum að eiga rétt á að vera í því án þess að borga. Auðvitað þarf að afla peninga til að byggja upp og vernda vinsæla ferðamannastaði. En hvers vegna ekki til dæmis með gjöldum sem menn borga með komu til landsins? Miklu auðveldara og skilvirkari lausn!

Margt sem þessi ríkisstjórn hefur gert nú þegar er í andstöðu við náttúruvernd. Það sem menn á þeim bæ ætla sér áfram að gera er því miður vanhugsað með framtíðina í huga: Halda áfram með virkjunarbrölt og vona samt að ferðamannastraumurinn muni skila sér áfram hingað. Ísland gæti dottið „úr tísku“ ef við eyðileggjum það sem ferðamenn sækjast eftir. Menn geta ekki étið kökuna og átt hana samt.

Ég mæli með því að sem flestir lesi „Draumalandið“ eftir Andra Snæ. Þessi bók kom út 2006 og þá voru sömu brjálæðingar að telja þjóðinni trú um að það þyrfti „að virkja eða deyja“, að lifa í vellystingum eða að skríða aftur í torfkofana, að stunda vel launuð störf eða tína fjallagrös. Hrunið varð tveim árum á eftir Kárahnjúkaævintýrinu. Var eitthvert samband þar á milli? Menn vildu verða ríkir á einni nóttu og kærðu sig ekki um afleiðingar á þessu stórmennskubrjálæði.

Þessi bók á erindi til okkar nú ekki síður en fyrir átta árum. Ég vitna hér í smá texta sem kannski verður til þess að menn hugsi sinn gang: „Ef ríkasta þjóð í heimi getur ekki varðveitt og verndað þá getur það enginn.“ Og áfram: „Íslandi er ætlað stærra og dýpra hlutverk en að verða hlekkur í sóunarkeðju heimsmarkaðarins.“




Skoðun

Sjá meira


×