Viðskipti innlent

Spáir að stýrivextir verði lækkaðir í tvígang

Stýrivextir eru nú 5,75 prósent en í byrjun nóvember voru þeir lækkaðir um 0,25 prósentustig.
Stýrivextir eru nú 5,75 prósent en í byrjun nóvember voru þeir lækkaðir um 0,25 prósentustig. Vísir/GVA
Greining Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að lækka stýrivexti um 0,25 prósentustig á næsta vaxtaákvörðunarfundi sem verður 10. desember næstkomandi. Einnig spáir greiningardeildin að vextirnir verði aftur lækkaðir á vaxtaákvörðunarfundi bankans þann 4. febrúar og standi þá í 5,25 prósentum.

„Rökin fyrir lækkuninni verða að okkar mati þau að raunvextir bankans hafi hækkað meira undanfarið en bankinn gerði ráð fyrir og aðhald peningastefnunnar aukist en ekki minnkað eftir vaxtalækkunina í nóvember,“ segir í nýrri stýrivaxtaspá deildarinnar sem kynnt var í gær. Þar er einnig tekið fram að hækkun raunstýrivaxta hafi undanfarið verið umfram það sem staða hagsveiflunnar og nærhorfur gefi tilefni til. Einnig hafi verðbólguhorfur til skemmri tíma batnað talsvert miðað við það sem gert sé ráð fyrir í verðbólguspá Seðlabankans.

„Þá hafa verðbólguvæntingar lækkað enn frekar frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi, og eru nú nálægt verðbólgumarkmiðinu, sérstaklega horft til skemmri tíma.“

Starfsmenn greiningardeildarinnar búast við að vaxtahækkunarferli hefjist á ný undir lok næsta árs og að stýrivextir Seðlabankans verði því hækkaðir um 0,25 prósentustig í nóvember 2015.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×