Viðskipti innlent

Bilaði áður en veðrið skall á

Svavar Hávarðsson skrifar
Ottó N. Þorláksson. Skipið verður frá veiðum vikum saman vegna bilunar.
Ottó N. Þorláksson. Skipið verður frá veiðum vikum saman vegna bilunar. mynd/hbgrandi
Ísfisktogari HB Granda, Ottó N. Þorláksson RE, verður frá veiðum í tvo og hálfan mánuð vegna alvarlegrar vélarbilunar.

Mikið lán þykir að bilunin kom í ljós áður en Ottó hélt til veiða fyrir síðustu helgi í ljósi ofsaveðursins sem gekk yfir um helgina.

Frá þessu segir á heimasíðu fyrirtækisins þar sem rætt er við Gísla Jónmundsson, skipaeftirlitsmann hjá HB Granda.

Bilunin er fólgin í því að höfuðlega í aðalvélinni hefur gefið sig. Búið er að semja við Stálsmiðjuna – Framtak um viðgerðina; taka þarf vélina úr skipinu áður en hún verður tekin í sundur.

Þar sem hátíðirnar eru fram undan þykir ljóst að skipið verður í fyrsta lagi sjóklárt um mánaðamótin janúar-febrúar.Bilunin kemur sér illa fyrir áhöfn skipsins, en einnig fyrir hráefnisöflun fyrir landvinnslu HB Granda í Reykjavík og á Akranesi.

HB Grandi gerir út þrjá aðra ísfisktogara og væntanlega verður að stýra úthaldi þeirra með öðrum hætti á meðan Ottó er úr leik.

Ottó N. Þorláksson var smíðaður árið 1981 í Garðabæ. Viðhaldi hefur ætíð verið sinnt af kostgæfni og aðalvélin var tekin upp í sumar. Bilunin kemur Grandamönnum því mjög á óvart.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×