Skoðun

Lekamál – umhverfismál

Ólafur Þ. Hallgrímsson skrifar
Flokksráðsfundur Vinstri grænna sendi frá sér ályktun í fjölmiðlum nýlega, þar sem lýst var vantrausti á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra vegna lekamálsins svonefnda og krafðist afsagnar hennar. Nú ætlar undirritaður ekki að leggja dóm á hið margumtalaða lekamál eða störf Hönnu Birnu í því samhengi. Í mínum huga og eflaust margra annarra er hér um mál að ræða, sem blásið hefur verið út, að því er virðist, af litlu tilefni.

Hitt vekur undrun sem stuðningsmaður VG, að þetta skuli vera eina ályktunin, sem alþjóð heyrir frá flokksráðsfundi VG. Ég hefði vænst þess, að ályktað yrði um önnur og þýðingarmeiri málefni samfélagsins, eins og t.d. umhverfismálin, því þar er vissulega af ýmsu að taka um þessar mundir.

Hvert stefnir í þeim málaflokki undir forustu núverandi ríkisstjórnar og með „umhverfisráðherra“ Framsóknarflokksins í broddi fylkingar? Ráðherrann, sem ætti að vera málsvari náttúrunnar, lýsti því yfir, er hann tók við embætti, að í rauninni væri sérstakt umhverfisráðuneyti óþarft, enda hefur hann unnið dyggilega í þeim anda síðan.

Byrjað var á að krukka í rammaáætlunina svonefndu, sem Alþingi hafði samþykkt í tíð fráfarandi ríkisstjórnar, og færa virkjanakosti í Þjórsá úr biðflokki í nýtingarflokk, jafnframt því sem Landsvirkjun er gefinn ádráttur um, einu sinni enn, að fara inn í Þjórsárver með miðlunarlón, svæði sem maður hélt, að þjóðin væri orðin einhuga um að bæri að vernda, ekki bara að hluta, heldur allt. Mun þjóðin sætta sig við eitthvað annað?

Uppi eru hugmyndir um byggingu a.m.k þriggja kísilmálmverksmiðja, á Bakka við Húsavík, Grundartanga og Helguvík. Einhvers staðar mun þurfa að bæta við virkjunum til að afla raforku til þessara verksmiðja. Mengun mun aukast og loftgæði versna. Staðreynd er, að stóriðjan leggur til einn stærsta hluta af útblæstri gróðurhúsalofttegunda á Íslandi í dag. Því verður ekki mótmælt með rökum. Nú ætlum við að bæta þar hressilega í. Að sjálfsögðu mun umhverfisráðherrann leggja blessun sína yfir þessar fyrirætlanir, hvað annað?

Á Reyðarfirði gætir nú mengunar í vaxandi mæli frá álveri Alcoa, flúormagn í grasi hefur mælst yfir viðmiðunarmörkum þriðja árið í röð. Fólki er ráðlagt að skola matjurtir, áður en neytt er, og dregið hefur úr berjatínslu. Á Reyðarfirði er stöðugt „eldgos“ í gangi, sagði greindur og glöggur bóndi á Héraði við mig í sumar og átti þar við mengun frá álverinu, sem farið er að gæta einnig uppi á Héraði. Ekki furða þótt brennisteinsígildin mælist há á Reyðarfirði, nú þegar gosmökkurinn frá Holuhrauni kemur þar til viðbótar.

Vantraust á rangan ráðherra?

Alþjóð er kunnugt hvað er að gerast í Lagarfljóti, sem búið er að umbreyta með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar, svo þar virðist lífríkið á undanhaldi sökum versnandi lífsskilyrða í Fljótinu, minnkandi gegnsæis og kólnunar. Ekki minnist ég þess að hafa séð eitt orð um umturnan Lagarfljótsins frá flokksráðstefnum VG eða öðrum ályktunum. Hafi það farið framhjá mér, biðst ég forláts.

Vísindamenn um allan heim eru nú nær sammála um, að hlýnun andrúmsloftsins, sem við erum farin að sjá hrikalegar afleiðingar af í veðurfari, sé af mannavöldum. Víst ber okkur að axla ábyrgð í loftslagsmálum til jafns við aðrar þjóðir í stað undanþága, sem við höfum stundað fyrir okkar stóriðju, enda höfum við undirgengist það samkvæmt Kyoto-sáttmála og loftslagsráðstefnum. Það gerum við ekki með þeim áformum, sem nú eru uppi. Þetta gerir yngra fólkið sér ljóst.

Í ályktun samþ. á landsfundi Ungra vinstri grænna (UVG) á Eskifirði nú í haust, segir m.a að UVG „leggist eindregið gegn aðför ríkisstjórnarinnar að ísl. náttúru“. Einnig segir, að „greinilegt sé, að enginn umhverfisráðherra sé í ríkisstjórn, aðeins sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem þráði lengri starfstitil“. Hér er talað tæpitungulaust. Stundum er gott að hlusta á hina ungu. Var kannski verið að lýsa vantrausti á rangan ráðherra? Vonandi sjáum við ekki ályktun frá næsta flokksráðsfundi VG fjalla um hvalbeinagrindina á Húsavík eða byssueign lögreglunnar. Framtíðin má ekki við því.




Skoðun

Sjá meira


×