Erlent

Rússland stefnir í efnahagskreppu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Framkvæmdir við lagningu gasleiðslunnar voru kynntar með táknrænni viðhöfn fyrir rúmu ári.
Framkvæmdir við lagningu gasleiðslunnar voru kynntar með táknrænni viðhöfn fyrir rúmu ári. Nordicphotos/AFP
Rússar hafa ákveðið að hætta við lagningu gasleiðslu frá Rússlandi til Evrópu, suður fyrir Úkraínu. Bæði illvíg efnahagsvandræði og refsiaðgerðir Evrópusambandsins eiga sinn þátt í því.

Vladimír Pútín forseti skýrði frá því á mánudagskvöld að líklega yrði hætt við þessi áform. Hann hafði varla sleppt orðinu þegar Alexej Miller, forstjóri rússneska orkufyrirtækisins Gasprom, sagði að þau hefðu nú verið blásin af.

Rússar eru farnir að finna töluvert fyrir efnahagserfiðleikum, sem að stórum hluta virðist mega rekja annars vegar til almennrar verðlækkunar á olíu í heiminum, hins vegar til Úkraínustríðsins og refsiaðgerða Vesturlanda.

Gengi rússnesku rúblunnar hefur lækkað um rúmlega 40 prósent síðan í janúar, og féll síðan hratt á mánudaginn. Olíuverð hefur lækkað um 25 prósent síðan í sumar, en útflutningur á olíu er meginuppistaðan í efnahagslífi Rússlands. Rússar sjálfir reikna með efnahagskreppu á næsta ári.

Reyndar kemur gengisfall rúblunnar sér ekki að öllu leyti illa fyrir ríkissjóð Rússlands, því það mildar áhrifin af verðlækkun olíunnar. Rússar fá að vísu færri dali fyrir olíutunnuna, en í staðinn fá þeir fyrir hvern dal fleiri rúblur í ríkiskassann, og eiga þar með auðveldara með að standa undir reglulegum ríkisútgjöldum en annars hefði orðið.

Þetta hefur þýska tímaritið Der Spiegel eftir Chris Wafer, sem er sérfræðingur í rússneskum efnahagsmálum.

Framkvæmdum við olíuleiðsluna suður fyrir Úkraínu átti að ljúka árið 2016. Áformin voru kynnt árið 2012 og framkvæmdir hófust nú í sumar, en nú er ljóst að ekkert verður af þeim – í bili að minnsta kosti.

Leiðslan átti að verða nærri 2.400 kílómetra löng, kosta 16 milljarða evra og flytja nægilegt gas handa 38 milljónum heimila í Evrópulöndum. Tilgangurinn var meðal annars sá að losna við Úkraínu sem millilið, vegna langvarandi ágreinings stjórnvalda þar við Rússa.

Talið er að Rússar hafi þegar lagt jafnvirði nærri fjögurra milljarða evra í fjárfestinguna. Auk þess hafa fyrirtæki í löndunum, sem leiðslan átti að liggja um, þegar lagt í töluverða fjárfestingu í samvinnu við Gasprom.

Gasleiðslan átti að liggja frá austurströnd Svartahafs og þaðan yfir hafið til Búlgaríu, áfram í gegnum Ungverjaland og Slóveníu allt til landamæraborgarinnar Tarviso á Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×