Gagnrýni

Í borg varga og sorgar

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Drápa
Drápa
Bækur:

Drápa

Gerður Kristný

Mál og menning

Reykjavíkurmyndin sem Gerður Kristný dregur upp í ljóðabálkinum Drápu er ekki fögur. Það er vetur í borginni, kuldinn nístir merg og bein og þeir sem eru á ferli hafa illt eitt í hyggju. Ljóðmælandinn er djöfullinn sjálfur og jafnvel honum virðist ofbjóða ástandið. Hann fylgist með stúlkunni sem ljóðið fjallar um og þótt hann sé herra þess heims sem hún sogast inn í og hafi sjálfur vakið hana til hans, þá hefur hann með henni samúð og það er hann sem sér um að koma henni eftir dauðann í hendur „eineygða guðinum / þeim sem skapaði / manninn í sinni mynd / og engist nú af eftirsjá“ (bls 68.). Svo grátleg þykja honum örlög stúlkunnar sem gengið hefur til liðs við myrkusinn, nauðug viljug, verið beitt ofbeldi og glatast í eiturlyfjakófinu. Og þegar kvölin er svo sár að djöfullinn sjálfur hrærist til meðaumkunar er hætt við að eitt lítið manneskjuhjarta nánast bresti af sorg við að ganga inn í þann heim sem Gerður skapar í þessari bók.

Það er þó vel áhættunnar virði að sökkva sér ofan í heim Drápu. Gerður Kristný fer hér á kostum í því sem hún gerir best; að tálga ljóðformið þannig að hver mynd verði eins og svipuhögg og leika sér með möguleika tungumálsins þannig að úr verður ný og óvænt upplifun á nánast hverri síðu. Maður á jafnvel á hættu að skella upp úr mitt í öllu myrkrinu og kuldanum þegar hún óvænt skýtur inn orðmynd eða tengingu sem hefur vísun í allt aðra og bjartari texta. Gangan inn í heim myrkusins er ekki auðveld, liggur við að þurfi dósahníf til að brjótast í gegnum yfirborð textans og inn í kviku hans, það er eiginlega ekki fyrr en við fjórða eða fimmta lestur sem lesandinn kemst almennilega í gegn en þá er heldur engin leið til baka. Nauðugur viljugur, eins og stúlkan sem ljóðið fjallar um, sogast hann dýpra og dýpra inn í heim myrkursins og lætur heillast aftur og aftur af því valdi sem skáldið hefur á máli og myndum

„Gerður Kristný fer hér á kostum í því sem hún gerir best.“Mynd: Thomas Langdon
Auk sögunnar um undirheima borgarinnar og afdrif stúlkunnar er í ljóðinu sterk ádeila á áhuga- og afskiptaleysi hins svokallaða kristna heims þegar þeir sem gengið hafa myrkrinu á hönd eiga í hlut. Endurtekin stef um krossa og kirkjur andspænis valdi djöfulsins eru firnasterk og opna nýjar víddir í túlkun textans. Eins og allar góðar bókmenntir er Drápa nefnilega ekki bundin við hérið og núið heldur hefur skírskotun til sögu mannskepnunnar allar götur síðan í Eden. Og víddunum fjölgar við hvern lestur enda Drápa ekki einnota bók heldur brunnur sem hægt verður að sækja í aftur og aftur. 



Niðurstaða: Fantasterkur ljóðabálkur með vandlega ydduðum ljóðum sem segja hrollvekjandi sögu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×