Skoðun

Hvað vilja tónlistarkennarar?

Anna Rún Atladóttir skrifar
Verkfall Félags tónlistarskólakennara (FT) hefur nú staðið í þrjár vikur. Íslendingar eiga rótgróna og metnaðarfulla tónlistarskóla, sem eiga stóran þátt í grósku tónlistar á Íslandi. Sköpun og iðkun tónlistar auðgar ekki bara menningu þjóðarinnar, hún beinlínis skapar tekjur fyrir hana. Nærtækt dæmi er Airwaves-hátíðin.

Á síðustu árum hefur verið vegið harkalega að tónlistarskólum landsins. Árið 2011 var gert samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um að standa straum af öllum kennslukostnaði tónlistarskóla, sem hefur ekki verið virt. Til að brúa bilið hafa margir tónlistarskólar þurft að hækka skólagjöld og skera niður. Þar með hefur tónlistarnám orðið of dýrt fyrir marga og skólastarf hefur laskast vegna viðvarandi fjárskorts. Vanræksla ráðamanna á þessu vandamáli er til skammar. Ofan á þetta bætast svo smánarleg kjör tónlistarkennara, sem nú hafa leitt til verkfalls. Sem fyrr sýna ráðamenn sveitarfélaganna (sérstaklega Reykjavíkurborgar) málefnum tónlistarnáms fullkomið virðingarleysi.

Ráðamenn finna strax fyrir áhrifum sem leiða af verkfalli leik- eða grunnskólakennara. Þá þurfa foreldrar að sinna börnum sínum á vinnutíma, sem hefur áhrif á afkomu atvinnurekenda – skammtímavandamál sem „verður” að leysa. Tónlistarkennarar hafa ekki slíkan slagkraft í sinni kjarabaráttu og það nýta ráðamenn sér miskunnarlaust. Vanræksla á rekstri tónlistarskóla og slæm kjör kennara skapa einnig alvarleg langtímavandamál, hvort sem um er að ræða kennara í leik-, grunn- eða tónlistarskóla. Þau leiða til verri menntunar barna, sem skilar sér seinna í fullorðnum einstaklingum sem eru verr þjálfaðir til að skapa, framkvæma og greina í samfélagi sem gerir sífellt meiri kröfur til þeirra um slíka hæfileika. Því miður fer lítið fyrir áhyggjum ráðamanna sveitarfélaganna af langtímaáhrifum þeirrar vanrækslu sem einkennt hefur rekstrargrundvöll tónlistarskólanna og kjör tónlistarkennara. Til marks um það eru m.a. viðbrögð þeirra við verkfalli FT.

Óásættanlegt

En um hvað snýst verkfallið? FT er eini aðili KÍ sem enn er ósamið við. Laun tónlistarkennara hafa dregist verulega aftur úr launum annarra sambærilegra hópa á undanförnum árum. Í janúar 2008 voru laun 45 ára tónlistarkennara með 15 ára starfsreynslu (BA) 5% hærri en laun umsjónarkennara tvö í grunnskóla með sambærilega menntun og reynslu. Síðasta tilboð samninganefndar sveitarfélaga gerir ráð fyrir að laun tónlistarkennarans verði 16% lægri í janúar 2015 og 27% lægri í maí 2015. Það er með öllu óásættanlegt að félagsmönnum innan KÍ sé mismunað í launum eftir skólagerð. Það stríðir raunar gegn einu af megin samningsmarkmiðum Sambandsíslenskra sveitarfélaga, sem er að tryggja sambærileg laun fyrir sambærileg störf, óháð kynferði, búsetu eða stéttarfélagsaðild.

Skilaboðin frá ráðamönnum sveitarfélaga virðast vera þau að störf, menntun og reynsla tónlistarkennara séu minna virði en annarra kennara og stjórnenda. Ég skora á ráðamenn sveitarfélaganna að leiðrétta þennan misskilning og ganga þegar í stað frá mannsæmandi samningum við FT.
Skoðun

Skoðun

Skóli án að­greiningar

Halldóra Jóhannesdóttir Sanko,Laufey Elísabet Gissurardóttir,Unnur Helga Óttarsdóttir skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.