Skoðun

"Í þeirri íþrótt að komast aftur úr öllum…“

Sigursveinn Magnússon skrifar
Ýmislegt virðist þessa dagana benda til að þjóðfélag okkar sé að ná sér eftir skellinn fyrir sex árum þegar guðs blessun var til kölluð að bjarga okkur í brimróti braskaranna. Nú hefur orðið breyting. Tekjur streyma úr ýmsum áttum, ferðamenn flykkjast að, aflabrögð góð, fyrirtæki skila hagnaði og lánshæfismat hækkar. Hvar sér þessarar hagsældar stað í lífi venjulegs fólks? Stöldrum við og skoðum þessa mynd betur.

Hver stéttin af annarri er rekin út í það óyndi að leggja niður vinnu til að berjast fyrir sanngjörnum launum, nú síðast læknar og tónlistarkennarar. „Hér ríkir eineltisástand í garð kennara,“ sagði kunningi minn sem ég hitti á götu um daginn. „Það er liður í vinsældakeppni stjórnmálamanna að níðast á þessari stétt og höfða þannig til rótgróinnar andúðar í þjóðarsálinni.“ „Taktu bara eftir,“ hélt hann áfram, „þú heyrir talað í neikvæðum tóni um kennara og það er hending ef nokkur viðstaddur tekur málstað þeirra og sjáðu, við horfum þögul á er kjarabarátta kennara er brotin niður æ ofan í æ.“

Batnandi hagur fyrir fáa?

Við felldum niður talið, en orðin hafa sótt á mig. Er eitthvað til í þessu? Af hverju gengur svo hægt að bæta kjör þessarar stéttar? Hvers vegna eru vandasöm störf þeirra ekki hærra metin? Þó eigum við og börnin okkar svo mikið undir því að kennarar geti notið sín í starfi og séð sér og sínum farborða. Getur verið að batnandi hagur sé hugsaður fyrir fáa? Er hugsanlegt að við þorum ekki að viðurkenna hvað það kostar að reka þjóðfélag með skólum og heilbrigðisþjónustu og öðru því sem við tengjum við siðmenningu?

„Drengurinn minn skilur ekkert í því að fá ekki að halda áfram í spilatímunum, hvernig á ég að útskýra það?“ sagði móðir í morgun. Foreldrar hafa áhyggjur, því þó flest sé óbreytt, eru dagarnir tómlegri og litlausari. Framvinda námsins rofin.

Ísland vill vera þjóð meðal þjóða og þegar ráðamenn hitta kollega sína í útlöndum brosa þeir og fara á kostum. En þegar heim kemur blasir veruleikinn við. Undirrituðum dettur í hug Jón Helgason sem ekki gat orða bundist er honum þótti yfirlætið keyra úr hófi og orti:

Undir blaktandi fánum og herlúðrum hvellum og gjöllum

sig hópaði þjóðanna safn,

þangað fór og af Íslandi flokkur af keppendum snjöllum

og fékk á sig töluvert nafn:

í þeirri íþrótt að komast aftur úr öllum

var enginn í heimi þeim jafn.

Tökum brýningu skáldsins, nýtum vaxandi hagsæld til að bæta kjör vinnandi fólks, með því sköpum við hér heilbrigt, litríkt, hljómfagurt og réttlátt samfélag.
Skoðun

Skoðun

Vald­níðsla

Áshildur Linnet,Bergur Brynjar Álfþórsson,Birgir Örn Ólafsson,Ingþór Guðmundsson skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.