Innlent

Hafa miklar áhyggjur af stöðu Landspítalans

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Afhentu áskorun Forsvarsmenn ýmissa samtaka afhentu forseta Aþingis, áskorun til stjórnvalda, í gær.
Afhentu áskorun Forsvarsmenn ýmissa samtaka afhentu forseta Aþingis, áskorun til stjórnvalda, í gær. Fréttablaðið/Stefán
Forsvarsmenn 45 sjúklinga- og aðstandendasamtaka afhentu í gær Einari K. Guðfinnssyni, forseta Alþingis, áskorun til stjórnvalda um að ráða nú þegar bót á því alvarlega ástandi sem ríkir á Landspítalanum.

Skora þau á stjórnvöld að endurskoða fyrirhugaðan niðurskurð í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Telja félögin að niðurskurðurinn muni valda ómældum kostnaði fyrir spítalann og alla sem njóta þjónustu hans og þess öryggis sem því fylgir að hafa aðgang að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu.

Ragnheiður Haraldsdóttir
Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélagsins, segist finna fyrir vaxandi áhyggjum vegna ástandsins hjá krabbameinssjúklingum. „Því miður ekki að ástæðulausu,“ segir hún og á þá við ástand Landspítalans sjálfs. „Svo bætist við verkfallið sem felur í sér að verið er að fresta aðgerðum og meðferðum. Menn vita ekkert hvað býr í framtíðinni hvað þetta varðar. Heilbrigðisstarfsfólk talar almennt ekki mikið um hættur í heilbrigðisþjónustunni en við heyrum að það er farið að tala öðruvísi núna. Okkur finnst mörgum að við náum ekki eyrum stjórnvalda og þrátt fyrir mikla umræðu undanfarið er eins og menn séu ekki að bregðast við. Eins og þeir trúi þessu ekki alveg.“

Guðmundur Bjarnason, formaður stjórnar Hjartaheilla, tekur í sama streng. „Við teljum afar mikilvægt að stjórnvöld fáist til þess að hlusta á óskir okkar og þær áhyggjur sem við höfum af ástandi á Landspítalanum.“

Guðmundur Bjarnason
Hann segir áhyggjurnar einnig snúa að því að ungt fólk vilji ekki koma til starfa á spítalanum vegna þess að hann sé ekki samkeppnishæfur þegar litið sé til spítala í nágrannalöndunum. Guðmundur segir að ályktunin hafi fyrst og fremst snúið að innviðum og ástandi spítalans án þess að félögin vilji blanda sér í kjaradeilur. Hann segir þó ástandið vegna verkfalls lækna hafa mikil áhrif á skjólstæðinga Hjartaheilla.

„Við finnum alltaf fyrir hræðslu þeirra sem eru á biðlistum eftir aðgerðum. Það er mjög góð og skjót þjónusta í neyðartilfellum þar sem þarf að bregðast strax við. Það eru biðlistarnir sem við höfum áhyggjur af og við þessar aðstæður geta þeir ekkert annað en lengst. Fólk er að verða fyrir áföllum, t.d. ótímabærum dauðsföllum, fólk á besta aldri er að falla frá vegna þess að það fær ekki strax þá þjónustu sem er lífsnauðsynleg. Það er því miður að gerast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×