Skoðun

Svo margir efnilegir en…

Martha Árnadóttir skrifar
Tilhugsunin um að ná snilldartökum á einhverju, sem skiptir okkur miklu máli, er hrikalega góð – ekki satt?

Daniel Pink segir, að rótina að snilldartökum megi finna í fyrirbæri sem hann kallar „flæði“ en flæði verður til í kjöraðstæðum þar sem áskoranir koma heim og saman við hæfileika okkar. Í flæðinu verða markmiðin kristaltær og skilin milli viðfangsefnis og okkar sjálfra verða óskýr – við rennum saman við það sem við erum að gera. Pink segir jafnframt að þótt snilldartökum verði ekki náð án flæðis, tryggi flæði á engan hátt að snilldartökum verði náð. Flæði getur orðið til í augnablikinu eða deginum en það tekur mánuði eða ár, jafnvel áratugi, að ná snilldartökum á einhverju.

Kynda undir ástríðunniMikilvægast er að geta séð hæfni sína í því ljósi að hana megi endalaust þroska og efla. Í þessu samhengi verða framfarir umfram allt eftirsóknarverðar. Markmiðin eru lærdómstengd, mistök ekki alvarlegt mál og fyrirhöfnin sjálfsögð.

Að vera tilbúin til að leggja það á sig sem þarf, þrautseigja og úthugsuð framkvæmd. Að þola mótsagnir, óvissu og sveiflur, sem til skiptis valda gremju eða kynda undir ástríðunni. Að skilja að þetta hvort tveggja er tímabundið og að sveiflan er viðvarandi er mikilvægt. Ef allt gengur á afturfótunum þá vitum við að það gengur yfir og það sama gildir um velgengnina, hún gengur líka yfir.

Fáir útvaldirÉg held það séu engar ýkjur þegar sagt er að það taki allt að tíu ár að ná snilldartökum á einhverju og þrautseigja sé sá eiginleiki sem ráði úrslitum – en skilgreina má þrautseigju sem ástríðu og úthald til að ná langtímamarkmiðum. Í ljósi þess er það engin tilviljun að margt bendir til að við ráðningar hafi þrautseigja náð forystusætinu af greindarvísitölu (IQ), sem besta forspárgildi um frammistöðu í starfi.

Þetta bendir líka til að meðfæddir eiginleikar séu lítils virði ef ástríðu og úthald skortir til að ná þeim snilldartökum sem við sækjumst eftir – útskýrir líka af hverju svo margir eru efnilegir en fáir útvaldir.


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.