Gagnrýni

Hart varstu leikinn, Hallgrímur

Jónas Sen skrifar
Kammerkórinn Hljómeyki "Fínlegur söngurinn var blæbrigðaríkur og frábærlega samstilltur. Og ljóðið sjálft er magnað…“
Kammerkórinn Hljómeyki "Fínlegur söngurinn var blæbrigðaríkur og frábærlega samstilltur. Og ljóðið sjálft er magnað…“
Tónlist



Við strjúkum þitt enni

Eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur og Oliver Kentish



Frumflutningur á 400 ára afmæli Hallgríms Péturssonar í Hallgrímskirkju laugardaginn 25. október.



Um þessar mundir er haldið upp á 400 ára afmæli Hallgríms Péturssonar.

Líkið af honum er sjórekið eins og Megas orti á sínum tíma um Jónas Hallgrímsson. En önnur kveður svo: „Spanskgrænan drýpur af deyjandi hönd… Hallgrímur, Hallgrímur hart ertu leikinn.“

Þessar línur eru ekki eftir Megas, heldur er þær að finna í ljóðinu Við strjúkum þitt enni eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur. Ljóðið var pantað af Tónmenntasjóði Hallgrímskirkju í tilefni hátíðahaldanna. Oliver Kentish samdi við það tónlist. Hún var flutt af Steev van Oosterhout slagverksleikara og Birni Steinari Sólbergssyni orgelleikara ásamt kammerkórnum Hljómeyki undir stjórn Mörtu Guðrúnar Halldórsdóttur.

Verkið var á dagskrá í Hallgrímskirkju á laugardaginn var.

Nú hefur maður farið á óteljandi frumflutninga í Hallgrímskirkju – það er frábært hvað kirkjan er stórkostlegur vettvangur fyrir nýsköpun. Þarna heyrðist fyrst hin magnaða Passía eftir Hafliða Hallgrímsson og orgelkonsert Jóns Leifs svo eitthvað sé nefnt.

Í samanburðinum var tónlistin nú fremur þunn. Fyrir það fyrsta var hún nokkuð brotakennd. Í henni voru bútar af hinu og þessu. Þetta voru litlar hendingar sem viku svo óvænt fyrir öðru. Þótt þær dúkkuðu aftur upp seinna urðu þær aldrei að neinu bitastæðu. Maður heyrði fallega lagstúfa sem líktust helst sálmum. En svo var klippt á þá, og við tók eitthvað sem var eins og í hrollvekju. Og svo var ÞAÐ líka búið, alveg fyrirvaralaust.

Ekkert í verkinu fékk að njóta sín og komast á flug. Músíkin var full af mótsögnum. Það var synd, því í henni voru margar góðar hugmyndir sem áttu skilið að fá að lifa.

Fyrir utan þetta vantaði stígandina í verkið. Undir lokin var þó hápunktur, en hann virkaði tilgerðarlegur í samhengi við hrærigrautinn á undan. Tilgerðin var svo undirstrikuð með ofnotuðum rörklukkum, sem gáfu músíkinni glimmerkennda, einhæfa áferð. Eins og slagverk getur nú verið fjölbreytt og spennandi.

Þetta kemur á óvart, því Oliver hefur vissulega gert margt vel. Hann er gott tónskáld og má vera stoltur af flestum verkum sínum. En kannski náði hann ekki að tengja almennilega við ljóðið hennar Sigurbjargar.

Hvað sem þessu líður var flutningurinn góður. Orgelparturinn var einfaldur og hann var ágætlega útfærður af Birni Steinari. Sömuleiðis söng kórinn prýðilega. Fínlegur söngurinn var blæbrigðaríkur og frábærlega samstilltur. Og ljóðið sjálft er magnað, um að Hallgrímur sé dáinn, en að orð hans lifi um ókomna tíð. Ég er ekki viss um að tónlist Olivers muni tóra svo lengi.



Niðurstaða: Klént, yfirborðslegt tónverk sem þó var glæsilega flutt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×