Skoðun

Á barnið þitt ekki erindi í VR-Skóla lífsins?

Ólafía B. Rafnsdóttir skrifar
Jafnaðarkaup, stórhátíðarálag, uppsagnarfrestur, launaseðill… Allt eru þetta hugtök sem geta þvælst fyrir fólki, ekki síst ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Í tæpa tvo áratugi hafa starfsmenn VR árlega heimsótt flesta grunnskóla á félagssvæði VR og fjölmarga framhaldsskóla og farið yfir réttindi og skyldur á vinnumarkaði með útskriftarnemum. Við höfum útskýrt fyrir þeim þessi hugtök og mörg fleiri. Við höfum svarað spurningum þeirra um hvað má og hvað má ekki í vinnu. Og við höfum bent þeim á hvert þau geta leitað með sínar spurningar og vandamál.

Reynsla síðustu ára hefur sýnt okkur hve þörf unga fólksins fyrir fræðslu er mikil og vaxandi. Mörg ungmenni vinna með skóla eða í skólafríum. Fimmtungur félagsmanna VR er á aldrinum 16–24 ára. Á sumrin er þessi aldurshópur enn fjölmennari, eða fjórðungur af heildarfjölda félagsmanna. Þennan aldurshóp þarf að fræða og var hugmyndin með VR-Skóla lífsins að svara því kalli. VR-Skóli lífsins hefur því það mikilvæga markmið að undirbúa unga fólkið okkar fyrir vinnumarkaðinn.

Vinnumarkaðurinn á mannamáli

VR-Skóla lífsins var hleypt af stokkunum í lok september og hafa viðtökurnar verið framar vonum. Efnið er sett fram á tungutaki unga fólksins og á þeim vettvangi sem þeim er tamt að nota. Hér er vinnumarkaðurinn útskýrður á mannamáli.

VR-Skóli lífsins er að stærstum hluta netnámskeið og fylgja nemendur ungri stúlku eftir þar sem hún sækir um og fær sitt fyrsta starf. Á þeirri vegferð læra hún og nemendur skólans hvað felst í því að vera þátttakandi á vinnumarkaði. Í lok námstímans hittast nemendur, fara yfir hvað þeir hafa lært og skerpa á samskiptamálunum. Þeir sem ljúka námi fá síðan staðfestingu á námslokum sem þeir geta sent með umsókn sinni um starf.

Leikreglurnar í frumskóginum

Starfsmenntun og aukin fræðsla á vinnumarkaði var ein helsta áhersla VR í síðustu kjarasamningaviðræðum og verður áfram í þeim viðræðum sem nú eru fram undan. VR-Skóli lífsins er hluti af þessari áherslu og mikilvægur grunnur til að byggja á.

Vinnumarkaðurinn er kannski frumskógur í augum unga fólksins. En á vinnumarkaði gilda leikreglur sem mikilvægt er að kunna skil á. Við foreldrarnir munum vafalaust flest eftir því þegar við mættum til vinnu í fyrsta skipti, ung og óreynd. Þá hefði nú verið gott að hafa lokið námi í VR-Skóla lífsins!

Á barnið þitt ekki erindi í þennan skóla?




Skoðun

Sjá meira


×