Viðskipti innlent

Leiðréttingin fari að mestu í nýjar skuldir

Haraldur Guðmundsson skrifar
Með aðgerðum ríkisstjórnarinnar til lækkunar verðtryggðra íbúðalána á að færa lánin niður um 72 milljarða króna.
Með aðgerðum ríkisstjórnarinnar til lækkunar verðtryggðra íbúðalána á að færa lánin niður um 72 milljarða króna. Vísir/Vilhelm
Seðlabankinn telur skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar geta leitt til aukinnar lántöku heimila upp á allt að 47 milljarða króna. Um tveir þriðju af svigrúminu sem skapist við leiðréttinguna verði því mögulega nýtt til frekari lántöku.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Seðlabankinn hélt í gær til að kynna nýtt hefti skýrslunnar Fjármálastöðugleiki.

Sigríður Benediktsdóttir
„Það er ákveðinn hópur af einstaklingum sem mun fara úr því að skulda yfir 80 prósent af virði fasteigna sinna og niður fyrir 80 prósentin sem mun gera það að verkum að þeir geta veðsett aftur upp í fullt rými eigna sinna eða tekið meiri lán. Við búumst því við að allt að tveir þriðju af þeim 72 milljörðum sem fara í leiðréttinguna eigi eftir að mynda aukið veðrými og geti því verið endurskuldsettir,“ segir Sigríður Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans.

Í skýrslu bankans kemur fram að eigna- og skuldastaða íslenskra heimila hefur haldið áfram að batna. Skuldirnar námu í júní síðastliðnum um 99 prósentum af vergri landsframleiðslu og lækkuðu þá um 4,6 prósentustig milli ára.

„Nýjustu tölur benda því til að skuldalækkun heimila sem hófst snemma árs 2009 sé enn í gangi,“ segir í skýrslunni. 

Sigríður segir það mat bankans að leiðréttingin eigi ekki eftir að lækka verulega hlutfall skulda heimilanna af landsframleiðslu. 

„Við erum ekki frá því að við séum komin í ákveðið jafnvægi. Skuldastaða íslenskra heimila, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, er í raun ekki mikil miðað við önnur lönd sem eru með lífeyrissjóði og húsnæðiseignir eins og við erum með. Við erum til dæmis með mun minni skuldsetningu en bæði Hollendingar og Danir. Skuldir heimilanna leita í ákveðið jafnvægi og þegar þær eru lækkaðar leita skuldirnar aftur upp í það jafnvægi,“ segir Sigríður






Fleiri fréttir

Sjá meira


×