Skoðun

Næg er þeirra kvöl!

Ragnar Tómasson skrifar
Í ráðherratíð Magnúsar heitins Kjartanssonar heilbrigðismálaráðherra varð hann fyrir heilsubresti. Hann lamaðist og varð að notast við hjólastól. Eftir þetta kvaðst Magnús hafa séð flest mál í öðru ljósi en áður.

Stór hluti öryrkja berst við þunglyndi. Það er lamandi sjúkdómur. Þá gerir það illt verra þegar þunglyndinu fylgir áfallaröskun, félagsfælni, víðáttufælni og skyld mein. Þeim þunglynda þykir stundum best að draga sæng upp fyrir höfuð og hreyfa sig hvergi. Lífið er grátt og litlaust. Er jafnvel ekki lengur eftirsóknarvert.

Fyrir áratugum greindist skjólstæðingur minn með alvarlegt þunglyndi eftir föðurmissi. Hún leitaði hjálpar geðlæknis. Viðbrögð hans voru … nei, ég get tæpast ætlast til að þið trúið því. Hún skýrði skrifstofu Landlæknis bréflega frá samskiptum sínum og læknisins – og því glæpsamlega ofbeldi sem hann beitti hana. „Ertu tilbúin að staðfesta framburð þinn fyrir dómi?“ var hún spurð.

Erfitt fannst henni að skrifa Landlækni bréf. Að þurfa að standa í réttarsal og lýsa árásinni sem hún varð fyrir, var langt umfram hennar getu.

Eftir þessi svör Landlæknis hvarf hún þeim sjónum. En flakandi sárin – og þunglyndið – hurfu ekki. Urðu þvert á móti erfiðari en áður.

Í áratugi hefur skjólstæðingur minn aldrei viljað sækja um örorkubætur – þar til á síðasta ári, og þá eftir miklar fortölur.

Tregir til átaka

Það þarf engan sérfræðing til að reikna út að skjólstæðingur minn er búinn að „spara“ ríkinu milljónir – jafnvel tugi milljóna, með því að draga sængina upp fyrir höfuð í stað þess að sækja sinn rétt. Þunglyndir eru tregir til átaka. Þeir leita í skjólið. Næg er þeirra kvöl og nægt þeirra böl þó TR svíki þá ekki um sinn lögboðna rétt. Umboðsmaður Alþingis hefur nú lesið þeim pistilinn. Tryggingastofnun ríkisins – og síðar Úrskurðarnefnd almannatrygginga, hefur neitað skjólstæðingi mínum um bætur þau tvö ár aftur í tímann, sem gefinn er kostur á í lögum. Nefndinni finnst skorta ítarlegri gögn um veikindi skjólstæðings míns, aftur í tímann. Engin leið var að fá greinargóðar leiðbeiningar. Með því að gefa leiðbeiningar væri úrskurðarnefndin að gera sig vanhæfa!

Ég kvartaði undan því við geðlækni að vottorð hans þætti ekki fullnægjandi. Því svaraði Ingvar Kristjánsson (geðlæknir) þannig, með læknisvottorði dags. 18.09. 2014:

„Athygli mín hefur verið vakin á að ekki sé gerð fullnægjandi grein fyrir heilsu hennar á árunum 2011 og fram á mitt ár 2013 (innskot mitt: Árin tvö sem sótt er um bætur fyrir). Ég tel þó að nægilega sé að orði kveðið í fyrstu málsgrein á annarri síðu í vottorðinu og því sem á eftir þeirri grein stendur. Auk þess held ég að fagfólk sem kemur til með að fjalla um vottorðið í þar til bærri nefnd átti sig vel á hvað alvarlegur heilsubrestur hennar hefur verið, og hversu langvinnur, einungis með því að líta á sjúkdómsgreiningarnar sem allar bera með sér að um er að ræða langvinna og erfiða sjúkdóma enda spannar sjúkdómssaga hennar a.m.k. 30 ár.

Ég tel engum vafa undirorpið að hún hafi náð því örorkustigi sem hún hefur verið metin eftir þá þegar 2011, raunar mörgum árum fyrr.“

Ég hef nýlega kynnt þetta mál fyrir velferðarráðherra, Eygló Harðardóttur. Það er sagt að nýir vendir sópi best – og Eygló er atorkusöm. Og það veitir ekki af því stórt er sviðið sem þarf að sópa.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×